Á 224. fundi sveitarstjórnar Dalabyggðar þann 18. ágúst, voru eftirfarandi bókanir samþykktar:
Bókun varðandi Laxárdalsheiði:
Sveitarstjórn Dalabyggðar skorar á Vegagerðina að huga að því að samhliða langþráðum endurbótum á veginum yfir Laxárdalsheiði verði horft til þess að endurbæta og tvöfalda þær brýr sem á leiðinni eru.
Það er ekki ásættanlegt að áfram verði einbreiðar brýr sem muna sinn fífil fegurri með blikkandi ljósum eftir að þessi mikilvæga leið hefur verið endurbætt.
Bókun varðandi Skógarstrandarveg:
Skógarstrandarvegur, vegur 54 í vegakerfi Íslands, gegnir lykilhlutverki í því að tengja saman Dali og Snæfellsnes. Skógarstrandavegur er eini stofnvegur á Vesturlandi sem er án bundins slitlags og sá lengsti á láglendi landsins alls sem er án bundins slitlags. Skógarstrandarvegur, með þverun Álftafjarðar, er forsenda fyrir auknu samstarfi sveitarfélaga við Breiðafjörð og góðri tengingu Snæfellsness, Dala, Vestfjarða og Norðurlands.
Nú er uppi algerlega óásættanleg staða hvað þessa mikilvægu vegtengingu varðar þegar einstaka ferðaþjónustufyrirtæki hafa bannað sínum ökumönnum og fararstjórum að aka þessa leið sökum þess hvað vegurinn er í slæmu ástandi.
Sveitarstjórn Dalabyggðar skorar á stjórnvöld að líta á þessa stöðu sem neyðarástand og veita sérstöku fjármagni til þessa vegar þannig að á næstu 2 árum verði lokið lagningu bundins slitlags á veg 54.