Bókun sveitarstjórnar Dalabyggðar um efnahagsmál

DalabyggðFréttir

Á fundi sveitarstjórnar þann 28. október sl. var eftirfarandi bókun lögð fram:

Sveitarstjórn Dalabyggðar skorar á stjórnvöld að styrkja grunngerð samfélagsins sem eru sveitarfélögin og tryggja rekstrargrundvöll þeirra. Það er einmitt rétti tíminn til þess að sækja fram á þeim vettvangi. Uppbyggingin hefst með grunngerðinni og þar á ekki að beita niðurskurðarhnífnum.

Nú stendur yfir vinna við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2009 í Dalabyggð. Veruleg óvissa er um forsendur gjalda- og tekjuhliðar áætlunarinnar. Í frumvarpi til fjárlaga ríkisins fyrir árið 2009 er ekki gert ráð fyrir 1.400 m.kr. aukaframlagi til jöfnunarsjóðs. Gert er ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs muni dragast saman en það veldur samdrætti tekjuhliðar almennra framlaga jöfnunarsjóðsins. Gangi þetta eftir mun það hafa verulegar afleiðingar á rekstur sveitarfélaganna í landinu ekki síst þeirra sem eru utan þenslusvæða undangenginna ára.

Framlög jöfnunarsjóðs eru um 40% skatttekna sveitarfélagsins Dalabyggðar. Þetta hlutfall er hærra hjá mörgum sveitarfélögum. Aukaframlagið kom til vegna skekkju í tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga en dugir engan veginn til þess að brúa það bil. Það getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér ef þetta framlag verði aflagt núna jafnhliða því sem almenn framlög jöfnunarsjóðs dragast saman vegna ástandsins í efnahagsmálum. Slíkum tekjusamdrætti þarf að mæta með niðurskurði og þá er stutt í skerðingu á lögbundinni þjónustu sveitarfélaganna.

Dalabyggð skorar á stjórnvöld að standa vörð um grunngerðina – það hefur aldrei verið mikilvægara en einmitt nú.
  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei