Áætlað er að hafa safnið opið annan hvorn sunnudag í vetur með sögustund um ákveðið málefni eða annað sem upp kemur. Sunnudaginn 31. ágúst er síðasti opnunardagur safnsins í sumaropnun og þá verður fjallað um verslun í Skarðsstöð um kl. 14.
Skarðsstöð var fyrsti löggilti verslunarstaðurinn í Dalasýslu, þann 1. apríl 1884. Verslunarsaga Skarðsstöðvar er um margt athyglisverð bæði fyrir og eftir að staðurinn varð lögformlega verslunarstaður. Hluti þeirrar sögu verður rifjaður upp og innlegg vel þegin, þ.m.t. minningar um verslunarferðir í Skarðsstöð.
Sögustundin byrjar um kl. 14 sunnudaginn 31. ágúst og aðgangseyrir er 500 kr.
Sunnudagarnir sem um er að ræða fram að áramótum eru 31. ágúst, 28. september, 12. og 26. október, 9. og 23. nóvember, 7. og 21. desember.
Dagskrá hvers og eins sunnudags verður auglýst á Dalir.is og Facebooksíðu safnsins. Einnig ef fella verður niður dagskrá vegna veðurs eða af öðrum ástæðum.
Tillögur að viðfangsefnum í vetur eru vel þegnar. Einnig ef einhver er tilbúin að stíga á stokk og segja frá einhverju athyglisverðu. Tillögum að efni og fyrirlesurum skal komið á framfæri við safnvörð á netfangið safnamal@dalir.is.
Þeir sem hafa áhuga á að fara í sund samhliða sögustund hafi samband við Gunnar Má með góðum fyrirvara á netfangið gunnarmar@umfi.is eða síma 777 0295 / 434 1465.