Laugardaginn 6. ágúst var hin árlega kvennareið Daladrottninga haldin í tuttugasta skiptið. Var það að vísu einu ári á eftir áætlun sökum hrossapestarinnar 2010.
Að þessu sinni var farið um Hvammssveit í blíðskaparveðri. Það voru um 100 konur sem söfnuðust saman í Sælingsdalstungu um hádegisbil og hestar gerðir klárir.
Lagt var af stað á slaginu eitt og riðið upp Tungumúla og sem leið liggur inn á Seljadal. Þar biðu okkar konungar Hvammssveitar og nokkrar heldri drottningar með dýrindisveitingar, bæði í föstu og fljótandi formi. Var þar áð í góða stund, spjallað og sungið.
Síðan var snúið við og farin sama leið til baka aftur og niður í friðsæla laut sem nefnist Paradís. Þar biðu okkar konungar og heldri drotningar með sömu veitingar og áður. Þar var setið og sólað sig allgóða stund áður en lokaspretturinn var tekinn.
Nú var riðið niður að sjó og sem leið liggur að Skerðingsstöðum. Þar var sprett af og hestum sleppt í girðingu. En ekki var annað að sjá en þeir væru frelsinu fegnir eftir vel unnið dagsverk.
En drottningar runnu á grillilminn sem angaði frá gamla húsinu á Skerðingsstöðum. En þar voru konungar búnir að koma fyrir grilli og stóðu sveittir við að framreiða mat fyrir okkur; forrétt, aðalrétt og eftirrétt. Eftirrétturinn var borinn fram í staupum sem merkt voru Kvennareið í Hvammssveit. Fengu konurnar staupin svo að gjöf í tilefni 20 ára afmælis kvennareiðar.
Þegar drottningarnar höfðu komið sér fyrir í brekkunni birtist einn að konungum okkar með gítar og kom sé fyrir inn á milli drottninga. Og þá var sungið, spjallað og hlegið fram eftir kvöldi.
Er það von okkar drottninga í Hvammssveit að það hafi verið saddar og sælar drottningar sem týndust til sinna heimkynna eftir ánægjulegan dag.
Fyrir hönd drottninga í Hvammssveit vil ég þakka öllum þeim drottningum sem sáu sér fært að mæta til okkar. Vonandi sjáumst við allar að ári aftur og þá í Hörðudalnum.
Bjargey Sigurðardóttir á Skerðingsstöðum.