Erling tannlæknir hættir

DalabyggðFréttir

Erling tannlæknir mun hætta starfsemi sinni hér í Búðardal og víðar í júlímánuði. Hér að neðan er kveðjubréf Erlings og fjölskyldu.

Kveðjubréf Erlings og fjölskyldu

Kæru vinir, viðskiptavinir og aðrir í Húnaþingi vestra, Dölum og Hólmavík.Nú er komið að tímamótum hjá okkur fjölskyldunni á Hvammstanga. Ég hef starfað á Hvammstanga í 8 góð ár, byggt upp tannlæknastofuna þar, sem og í Búðardal og nú síðast tekið við rekstrinum á Hólmavík.
Þessi ár haf verið reynslurík og krefjandi, en einnig skemmtileg og lít ég til baka sáttur. Þetta hefur leitt ef sér mikla vinnu og sömuleiðis mikla fjarveru frá fjölskyldunni. 8 ár á flakki um sveitir Norðurlands vestra er ágætis tími og ekki verður maður yngri.
Við fjölskyldan höfum því ákveðið að breyta til, venda kvæði okkar í kross og reyna fyrir okkur í Danmörku þar sem ég á rætur að rekja. Mér hefur boðist góð tannlæknastaða og möguleiki á að gerast meðeigandi í ört vaxandi tannlæknakeðju á Jótlandi.
Áætluð starfslok hér á Íslandi eru um miðjan júlí þar sem ég hef verið beðinn um að hefja störf í Danmörku 1. ágúst.
Hvet ég því fólk sem er í þörf á meðferð, eða er í meðferð hjá mér, að bóka tíma sem fyrst svo að hægt verði að ganga frá lausum endum. Allt tekur þetta tíma og því mikilvægt hefjast handa.
Ég hef auglýst reksturinn til sölu og er að reyna að fá einhvern til að koma í minn stað. Það getur tekið tíma að fá tannlækni til að koma út á land. Í hreinskilni sagt furða ég mig á því hversu erfitt er að manna stöður úti á landi. Mín reynsla af dvöl okkar á landsbyggðinni hefur bara verið góð. Tel ég að fólk fari á mis við heilmikið þegar það upplifir aldrei að búa úti á landi.
Við fjölskyldan kveðjum vini okkar og kunningja með söknuði og lítum á dvöl okkar hér úti á landi sem mótandi og lærdómsríka lífsreynslu, en jafnframt eru fyrirhugaðar breytingar krefjandi og spennandi, sem við munum takast á full af tilhlökkun.
Erling Valdimarsson tannlæknir, Bertha Kristín Óskarsdóttir og börn.
  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei