Fjárhagsáætlun Dalabyggðar 2014-2017

DalabyggðFréttir

Fjárhagsáætlun Dalabyggðar fyrir árin 2014-2017 var til fyrri umræðu á fundi sveitarstjórnar 29. október sl. og til síðari umræðu 17. desember 2013.
Álagningarhlutfall útsvars verði 14,52% samkvæmt breytingum á hámarksútsvari samþykktu af Alþingi til að tryggja aukið fjármagn vegna málaflokks fatlaðra sem sveitarfélög hafa tekið við.
Gert er ráð fyrir að álagningarhlutföll fasteignaskatts, lóðarleigu, holræsagjalds og vatnsskatts verði óbreytt frá yfirstandandi ári.
Gert er ráð fyrir að gjaldskrár hækki almennt um 4,2% eða sem nemur hækkun vísitölu neysluverðs á árinu 2013. Gjaldskrár leikskóla, mötuneytis leik- og grunnskóla og tónlistarskóla hækka þó minna eða um 2,5%.

A- og B hluti sveitarsjóðs

Í A-hluta sveitarsjóðs er tilgreindur fjárhagur þeirrar starfsemi sem að hluta eða að öllu leyti er fjármögnuð af skatttekjum meðan í B-hluta eru aðrar rekstrareiningar sem eru reknar sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar svo sem Dvalar- og hjúkrunarheimilið Silfurtún, vatns- og fráveita. Gert er ráð fyrir að rekstrarniðurstaða A-hluta verði jákvæð um rúmar 2 millj. kr. en A- og B-hluta jákvæð um rúmlega 1 millj. kr. Til að ná jákvæðri niðurstöðu þurfti að skera áætlanir forstöðumanna niður um 1%.

Skatttekjur

Gert er ráð fyrir að skatttekjur verði 457, 1 millj. kr á árinu 2014. Útsvar yfirstandandi árs er ekki að standa undir væntingum og því er áætlun næsta árs varfærin. Skv. áætlun Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga lækka framlög til Dalabyggðar milli ára. Fasteignaskattur hækkar lítillega vegna hækkaðs fasteignamats.

Félagsþjónusta

Félagsþjónusta hækkar um rúmar 2 millj. kr. frá yfirstandandi ári eða um 14%, að mestu vegna aukinnar heimaþjónustu og liðveislu.

Fræðslu- og uppeldismál

Hækkar um 14 millj. kr. milli ára eða um 6%. Hækkunin kemur að mestu til vegna fjölgunar leikskólabarna en einnig vegna aukins launakostnaðar. Fræðslumál taka til sín um 57% skatttekna sveitarfélagsins eða 47% heildartekna. Gert er ráð fyrir að ríkið sjái um launakostnað vegna framhaldsskóladeildar þó engin loforð liggi fyrir þar um.

Menningarmál

Gert er ráð fyrir um 3 millj. kr. hækkun milli ára eða um 6%. Meðal annars er gert ráð fyrir endurbótum á húsnæði Byggðasafnins fyrir um 1,5 millj. kr. og 0,8 millj. kr. vegna 800 ára árstíðar Sturlu Þórðarsonar sagnaritara.

Æskulýðs- og íþróttamál

Ekki er gert ráð fyrir hækkun frá áætlun ársins 2013. Gert er ráð fyrir að ráða starfsmanna í hlutastarf til að sinna æskulýðs- og tómstundamálum en ekki er gert ráð fyrir starfsmanni við sundlaugina í Búðardal enda er hún fyrst og fremst ætluð til kennslu.

Brunamál og almannavarnir

Gert er ráð fyrir um 1,5 millj. kr. hækkun frá áætlun 2013 þar af um 0,7 millj. kr vegna launa en nýverið var gengið frá samningi við Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Gert er ráð fyrir að setja upp brunaviðvörunarkerfi í slökkviliðsstöðina.

Hreinlætismál

Ekki er gert ráð fyrir hækkun frá 2013. Gert er ráð fyrir að fækka sorphirðudögum þannig að heimilissorp verði hirt á 14 daga fresti í stað 10. Aðgengi að flokkunarstöð (gámavelli) verði bætt þannig að íbúar geti losað flokkað sorp án tillits til opnunartíma stöðvarinnar. Hvatt verður til aukinnar flokkunar. Gert er ráð fyrir að gámar fyrir timbur og málma verði aðgengilegir um sveitarfélagið í ákveðinn tíma á vormánuðum.
Fjárfest verður í nýjum urðunarstað til grófurðunar fyrir allt að 12 millj. kr. fáist til þess tilskilin leyfi.

Skipulags- og byggingarmál

Gert er ráð fyrir óbreyttum rekstri og óverulegum kostnaðarauka.

Umferðar- og samgöngumál

Gert er ráð fyrir óbreyttum rekstri. Um 3 millj. kr verða lagðar til viðhalds gatna í Búðardal.

Umhverfismál

Gert er ráð fyrir 1 millj. kr. vegna framkvæmda við Kvennabrekkukirkjugarð og 1,0 millj. kr. til sjálfboðavinnuverkefna.

Atvinnumál

Gert er ráð fyrir svipuðum rekstri og á yfirstandandi ári. Gert er ráð fyrir 1 millj. kr. til viðhalds fjárrétta. Gert er ráð fyrir allt að 10 millj. kr. fjárfestingu við tjaldsvæðið í Búðardal, endurnýjun þjónustuhúss og stækkun húsbílastæðis.

Sameiginlegur kostnaður

Gert er ráð fyrir óbreyttum rekstri og nokkurri kostnaðarlækkun. Lokið verður við endurbætur á stjórnsýsluhúsi á vormánuðum.

Lífeyrisskuldbindingar

Gert er ráð fyrir að lífeyrisskuldbindingar hækki um 4 millj. kr. sem er minni hækkun en áætluð var á árinu 2013.

Fjármagnsliðir

Gert er ráð fyrir að fjármagnsliðir verði nánast óbreyttir.

Eignasjóður

Gætt verður aðhalds í rekstri eignasjóðs og almennu viðhaldi verður haldið í lágmarki. Lokið verður við utanhússviðgerðir á Dalabúð.

Vatnsveita

Gert ráð fyrir óbreyttum rekstri. Komið verður upp nýjum brunahönum.

Dvalar- og hjúkrunarheimilð Silfurtún

Gert er ráð fyrir óbreyttum rekstri og að Dalabyggð greiði um 5 millj. kr. með rekstrinum. Velferðarráðuneytið hefur enn ekki orðið við óskum um greiðslur fyrir dagvistarrými og ekki er gert ráð fyrir að þær skili sér á komandi ári.

Leiguíbúðir

Gert er ráð fyrir minni háttar viðhaldi á leiguíbúðum. Leigutekjur standa undir beinum rekstrarkostnaði en einungis hluta afskrifta og fjármagnsgjalda.

Fráveita

Gert er ráð fyrir að hafist verði handa við fyrsta áfanga frárennsliskerfis fyrir hesthúsahverfi. Hreinsun rotþróa er nú unnin samkvæmt ákveðnu skipulagi.

Fjárfestingar og lántökur

Gert er ráð fyrir eftirfarandi framkvæmdum sem gert er ráð fyrir að færist til eignar á efnahagsreikningi:
Íþróttavöllur Búðardal, aðstöðuhús
2.000.000
Nýr urðunarstaður
9.500.000
Deiliskipulag vegna urðunarstaðar
500.000
Tjaldsvæði Búðardal, aðstöðuhús o.fl.
8.000.000
Stjórnsýsluhús, lok utanhússviðgerða
3.000.000
Vesturbraut 22, gluggar o.fl.
1.000.000
Dalabúð, lok utanhússviðgerða, skábraut
7.500.000
Vatnsveita, nýir brunahanar
500.000
Fráveitukerfi hesthúsahverfi 1. áfangi
6.000.000
11. desember 2013
Sveinn Pálsson, sveitarstjóri

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei