Fréttatilkynning frá Óbyggðanefnd

DalabyggðFréttir

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur, fyrir hönd íslenska ríkisins, afhent óbyggðanefnd kröfur ríkisins um þjóðlendur á svonefndu svæði 9B, það er Snæfellsnesi ásamt fyrrum Kolbeinsstaðahreppi og fyrrum Skógarstrandarhreppi. Á svæði 9B eru eftirtalin sveitarfélög: Snæfellsbær, Grundarfjarðarbær, Eyja- og Miklaholtshreppur, Helgafellssveit, Stykkishólmsbær, hluti Borgarbyggðar (fyrrum Kolbeinsstaðahreppur) og hluti Dalabyggðar (fyrrum Skógarstrandarhreppur). Óbyggðanefnd, sem er úrskurðarnefnd á stjórnsýslustigi, kynnir nú þessar kröfur, í samræmi við ákvæði laga nr. 58/1998, í þeim tilgangi að ná til þeirra sem kunna að eiga öndverðra hagsmuna að gæta.

Þjóðlendukröfur íslenska ríkisins taka til eftirtalinna svæða:

  • Eyrarbotns, fyrir botni Kolgrafarfjarðar.
  • Snæfellsjökuls.
  • Landsvæðis sunnan og austan Snæfellsjökuls.
  • Landsvæðis milli Hraunhafnardals, Mælifells og Bjarnarfossdals.
  • Fjalllendis milli Elliða og Lágafells, auk Baulárvalla.

Nákvæma afmörkun og yfirlitskort er að finna á vefsíðu óbyggðanefndar (www.obyggdanefnd.is) og á skrifstofum viðkomandi sveitarfélaga og sýslumannsembættis.

Tilkynning um kröfurnar var birt í Lögbirtingablaðinu 23. febrúar síðastliðinn í samræmi við 2. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998. Þar er skorað á þá sem telja til eignarréttinda á þjóðlendukröfusvæðis ríkisins að lýsa kröfum sínum skriflega fyrir óbyggðanefnd í síðasta lagi föstudaginn 25. maí 2018.

Að loknum framangreindum fresti fer fram opinber kynning á heildarkröfum (ríkisins og annarra) sem stendur í einn mánuð. Þá verður tekin ákvörðun um skiptingu svæðisins í mál og málin síðan tekin fyrir eins oft og þurfa þykir. Óbyggðanefnd ber samkvæmt 5. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998 að hafa frumkvæði að því að afla heimilda og gagna um eignar- og afnotaréttindi yfir þeim landsvæðum sem til meðferðar eru og framkvæma rannsóknir og athuganir um staðreyndir og lagaatriði sem þýðingu hafa fyrir niðurstöðu í einstökum málum. Til að tryggja sem best að þau gögn sem mögulega geta haft þýðingu komi fram nýtur óbyggðanefnd í ríkum mæli liðsinnis Þjóðskjalasafns Íslands sem sér um að afla gagna um ágreiningssvæðin með kerfisbundnum hætti, auk þeirrar leitar sem fram fer í héraði, hjá viðkomandi sýslumannsembætti og víðar.

Mikilvægur liður í málsmeðferð hjá óbyggðanefnd er svonefnd aðalmeðferð. Fyrirkomulag aðalmeðferðar hjá óbyggðanefnd er almennt með þeim hætti að fyrst er farið á vettvang undir leiðsögn heimamanna, síðan gefa aðilar og vitni skýrslur og að því búnu eru málin flutt munnlega. Eftir að fram komin gögn hafa verið rannsökuð til hlítar eru úrskurðir kveðnir upp.

Hlutverk óbyggðanefndar er samkvæmt 7. gr. laga nr. 58/1998 að 1) kanna og skera úr um hvaða land telst til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda, 2) að skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur og 3) úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna.

Óbyggðanefnd

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei