Fyrsta helgi í Þorra

DalabyggðFréttir

Að vanda er ýmislegt um að vera í Dölum og nágrenni fyrstu helgina í Þorra. Námsvaka í Auðarskóla, félagsvist í Sævangi, þorrablót í Dalabúð og Reykhólum og Þorrakviss á Staðarfelli.
Námsvaka Auðarskóla er áheitasöfnun til styrktar unglingastarfi skólans. Nemendur 8.-10. bekkja verða með sólarhrings námsmaraþon 24.- 25. janúar. Allir eru hvattir til að koma og kíkja á námshestana, foreldrar, gestir og þeir sem hafa heitið á krakkana eru sérstaklega boðnir velkomnir. Ef einhver á eftir að heita á krakkana er það hægt að gera á áheitablöðum sem liggja frammi víða, skrifstofu Dalabyggðar, Samkaupum, KM, Auðarskóla og víðar.
Fyrir áhugasama spilara skal þess getið að félagsvist verður spiluð í Sævangi á Ströndum fimmtudagskvöldið 24. janúar kl. 20. Það er Sauðfjársetur á Ströndum sem stendur fyrir spilamennskunni. Þátttökugjald er 800 kr og eru veglegar veitingar innifaldar.
Laugardagskvöldið 26. janúar eru tvö þorrablót. Þorrablót Laxdælinga er í Dalabúð kl. 20. Þorramatur framreiddur af Sigurði Finni, skemmtiatriði af þorrablótsnefnd og dansleikur með Hvanndalsbræðrum.
Þorrablót Reykhólahrepps er einnig á laugardagskvöldið kl. 20:30 í íþróttahúsinu á Reykhólum. Sigurður Finnur sér einnig um þorramatinn þar á bæ, þorrablótsnefnd um skemmtiatriði, en Matti og draugabanarnir sjá aftur á móti um dansleikinn.
Þaulsetur sf. boðar síðan til spurningakeppni, Þorrakviss, í félagsheimilinu á Staðarfelli sunnudaginn 27. janúar kl. 15. Keppt verður í 2-3 manna liðum. Spurningar verða fjölbreyttar og fjölskylduvænar. Þátttökugjald er 500 kr fyrir eldri en 16 ára og yngri borga ekkert. Umf. Dögun verður svo með kaffisölu, 500 kr fyrir manninn. Allur ágóði Þaulseturs og Umf. Dögunar rennur til endurbóta á félagsheimilinu Staðarfelli.
  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei