Garðyrkjufundur

DalabyggðFréttir

Það var mikil stemming í Leifsbúð í Búðardal þegar Vilhjálmur Lúðvíksson, formaður Garðyrkjufélagsins og Kristinn H. þorsteinsson fræðslustjóri Garðyrkjufélags Íslands fluttu fræðsluerindi fyrir fullu húsi fimmtudagskvöldið 28. febrúar s.l.
Undirbúningur fræðslufundarins var samstarfsverkefni Dalabyggðar og Garðyrkjufélags Íslands. Kristinn og Vilhjálmur dvöldu í tvo daga í Dalabyggð fyrir fræðslufundinn og fóru víða um undir styrkri leiðsögn Boga Kristinssonar byggðatæknifræðings. Tré voru mæld, garðar skoðaðir og þversnið tekinn í jarðvegi til skoðunar.
Vilhjálmur bauð fundargesti velkomna og kynnti starfsemi Garðyrkjufélags Íslands og sem er eitt elsta starfandi almannafélag í landinu. Félagið hefur á stefnuskrá sinni að efla ræktunarmenningu um land allt og vill stuðla að samvinnu sveitarfélaga og samtaka áhugafólks um ræktun til gagns og yndis og bæta ásýnd og hollustu umhverfis byggðar. Hefur félagið nýlega hlotið styrk frá stjórnvöldum í þessu skyni.
Kristinn fjallaði um gróður í görðum og á opnum svæðum sveitafélaga og benti á leiðir til að auka skjól með trjágróðri og skipuleggja gróðursetningu skjólbelta og stórvaxinna trjáa til að mynda skjól og lyfta vindstreng yfir byggðina án þess að mynda óheppilega skugga.
Kristinn og Vilhjálmur sýndu fjölmargar myndir frá Dalabyggð og sögðu að skoðunarferð þeirra hefði leitt í ljós að ræktunarskilyrði í Búðardal og nágrenni væru miklu betri en búast mætti við af orðspori. Finna mætti ótrúlegan fjölda tegunda trjáa og runna í Dalabyggð og vöxtur þeirra og þroski að jafnaði mikill. Viðkvæmar sígrænar tegundir og rósir, stæðu sig með eindæmum vel á stöðum sem væru opnir fyrir hörðum vestanáttum. Stórmerkilegt var að sjá hið fræga enska rósayrki ‘Graham Thomas’ vaxa í yfir metershæð með ókalna sprota og leifar af nýpum liðins sumars tilbúið til að senda út nýja sprota mót komandi sumri. Þessi rós var kjörin ,,heimsrósin“ árið 2009 af Heimssamtökum rósafélaga sakir blómfegurðar og vaxtarkrafts, – þótt ekki væri þá búist við því að hún gæti þrifist vel á Íslandi! Hún ber nafn eins af kunnustu garðyrkjufrömuðum Englands sem lést árið 2003.
Af þessu má ráða að bæði jarðvegur og jarðvegsraki í Búðardal henti sérlega vel til ræktunar. Þar spila saman frjósamur birkimór og hinn frægi Dalaleir. Afmörkuð voru sérlega áhugaverð svæði bæði til ræktunar skjólbelta umhverfis byggðina og til ræktunar skrúðgarða innan bæjarins í Búðardal. Þegar liggur fyrir brautryðjendastarf og reynsla af tegundum sem hægt er að byggja á.
Í lok fundarins voru undirrituð drög að samstarfssamningi milli Garðyrkjufélagsins, Dalabyggðar (með fyrirvara um samþykki sveitarstjórnar)og samtaka garðyrkjuáhugafólks í Dalabyggð um eflingu ræktunarmenningar og útbreiðslu þekkingar í gegnum skólastarf, svo stuðningi við ræktun í einkagörðum og í almenningsrými á vegum sveitarfélagsins.

Garðyrkjufélag Íslands

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei