Gönguhópur í Saurbænum hefur virkur frá febrúarbyrjun. Gengið er tvisvar í viku, þriðjudaga og laugardaga óstundvíslega um kl. 14 frá Tjarnarlundi.
Öllum er velkomið að mæta, karlar, konur og börn. Þó verður að segjast að konurnar hafa verið heldur duglegri að mæta í gönguna. Auk hollrar hreyfingar er gangan líka nauðsynleg til að skiptast á fréttum og sögum úr sveitinni. Og svo er stundum skroppið í kaffi á eftir til að tryggja að ekki verði stórfellt tap á hitaeiningum.
Ekki skemmir fyrir að hafa gott útsýni og mikið fuglalíf, sem bara eykst eftir því sem vorar meira. Ekki er skilyrði að vera úr Saurbænum eða af Skarðsströnd til að mæta og allir velkomnir. Tilvalinn laugardagsbíltúr, ganga í fallegu umhverfi og hitta hresst fólk.
Í myndasafni eru nokkrar myndir teknar af Valdísi Einarsdóttur úr göngunni laugardaginn 2. mars. Auk þessarra mynda hafa nýlega bæst við myndir frá öskudeginum (ljósm. Björn Anton Einarsson og Magnína Kristjánsdóttir), tónleikum Svavars Knúts í Erpsstaðafjósinu (ljósm. Valdís Einarsdóttir), Hafratindur árið um kring (ljósm. Valdís Einarsdóttir) og frá þorrablóti á Silfurtúni (ljósm. Björn Anton Einarsson).
Ítrekað er að myndasyrpur frá mannlífi og öðru hér í Dölum eru ávallt vel þegnar á vef Dalabyggðar.