Aðgerðir stjórnvalda í umhverfismálum eiga sér um aldarlanga sögu. Fyrstu skrefin voru stigin á þessu sviði fyrir rúmri öld þegar vinna við landgræðslu og skógrækt hófst hér á landi. Lög um náttúruvernd voru fyrst sett árið 1956, en áður höfðu verið í gildi lög og reglur um friðun tiltekinna dýrategunda og stjórn veiða.
Umhverfisráðuneytið var stofnað árið 1990. Með stofnun þess voru sköpuðust skilyrði til að móta og framfylgja heildstæðri stefnu í umhverfismálum.
Markmið umhverfisráðuneytisins er að styrkja umhverfisvernd og sjálfbæra þróun, efla samvinnu ráðuneyta og stofnana og samræma aðgerðir þeirra á þessum sviðum.
Ráðuneytið fer með mál er varða náttúruvernd, friðlýsingar, dýravernd, veiðistjórn, mengunarvarnir, eiturefnaeftirlit, loftslagsmál, líffræðilega fjölbreytni, skógrækt, landgræðslu, skipulagsmál, landmælingar, byggingarmál, brunavarnir, veðurþjónustu, vatnamælingar, ofanflóð, náttúruvá, umhverfisrannsóknir og umhverfisvöktun svo og fræðslu á sviði umhverfismála.
Ráðuneytið fer og með alþjóðlegt samstarf á sviði umhverfismála í samvinnu við utanríkisráðuneytið. Mörg helstu umhverfisvandamál mannkyns eru alþjóðlegs eðlis og verða ekki leyst nema með víðtækri alþjóðlegri samvinnu. Þess vegna hefur vægi umhverfismála aukist til muna í alþjóðlegu starfi á síðari árum og mikill árangur hefur náðst á ýmsum sviðum, s.s. í baráttunni við eyðingu ósonlagsins.
Stofnanir sem heyra undir Umhverfisráðuneytið eru Landgræðsla ríkisins, Landmælingar Íslands, Mannvirkjastofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn, Skipulagsstofnun, Skógrækt ríkisins, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, Umhverfisstofnun, Úrvinnslusjóður, Vatnajökulsþjóðgarður og Veðurstofa Íslands.