Fyrir áhugasama verður kynning á verkefninu „Hittu heimamanninn“ þriðjudaginn 10. september frá kl. 17. Í tengslum við kynninguna verður farið í stutta óvissuferð.
Þeir sem vilja taka þátt í kynningunni eru beðnir um að hafa samband sem allra fyrst á netfangið localdalir@gmail.com eða í síma 893 3211
Hittu heimamanninn snýst um að byggja upp persónulega ferðaþjónustu í Dölum utan háannatíma með því að virkja fleiri heimamenn til starfa innan greinarinnar og tengja ferðaþjónustu við afurðir og fróðleik úr okkar nærumhverfi.
Ferðaþjónustan Þurranesi, Erpsstöðum og Þaulsetur fengu öndvegisstyrk frá Vaxtarsamningi Vesturlands til að vinna að verkefninu. Í verkefninu er lögð nokkuð jöfn áhersla á nýsköpun og þróun skipulagðra vetrarferða, markaðsmál og fræðslu til handa þátttakendum með gæði, fagmennsku og gleði að leiðarljósi.
Um langtímaverkefni er að ræða og horft er til framtíðaruppbyggingar ferðaþjónustu í tengslum við annað atvinnulíf í héraði. Hvert starf heimamanns er sigur í litlu samfélagi og gerir ekkert annað en bæta mannlífið hér í Dölum. Verkefnið hefur það verið kynnt að nokkru í dreifibréfi. Þeir sem vilja kynna sér verkefnið betur eru hvattir til að hafa samband og/eða mæta á kynninguna.