Íbúafundur um ljósleiðaramál

DalabyggðFréttir

Íbúafundur um ljósleiðaramál var haldinn í Dalabúð 17. mars. Fulltrúar Dalabyggðar áttu fund með Alþingismönnum Vesturlands um málið þ.á.m. Haraldi Benediktssyni formanni starfshóps um fjarskiptamál og að á fundi sveitarstjórnar 17. febrúar s.l. hefði verið samþykkt að boða til íbúafundar um málefnið.
Á fundinum voru með framsögu Jóhannes Haukur Hauksson oddviti Dalabyggðar, Haraldur Benediktsson alþingismaður, Guðmundur Halldórsson á Vogi, Bryndís Karlsdóttir á Geirmundarstöðum, Ingólfur Bruun Öræfasveit og Ólafur Sveinsson atvinnuráðgjafi SSV.
Fundurinn samþykkti eftirfarandi ályktun
Íbúafundur, haldinn í Dalabúð í Búðardal 17. mars 2015, fagnar framkominni skýrslu starfshóps innanríkisráðherra um alþjónustu í fjarskiptum og hvetur ríkisstjórn Íslands til að hrinda tillögum hópsins í framkvæmd með sérstöku átaksverkefni á árunum 2015-2020.
Íbúafundurinn telur að við forgangsröðun framkvæmda skuli horft fyrst til svæða sem verst eru sett og að horft sé til sjónarmiða í gildandi byggðaáætlun hvað varðar svæði með fábreytt atvinnulíf og sem byggja helst á landbúnaði.
Dalir mættu á fyrri áratugum afgangi í uppbyggingu dreifikerfa á landsvísu s.s. varðandi lagningu jarðsíma og rafveitu. Færa má rök fyrir að þetta hafi komið niður á þróun byggðarinnar. Brýnt er að sama verði ekki uppi á teningnum varðandi uppbyggingu ljósleiðarakerfis.
Íbúafundurinn hvetur ríkisstjórnina til að hefja hið allra fyrsta landsátak í uppbyggingu fjarskiptainnviða í samræmi við tillögu starfshópsins leið 2, samstarfsleið – landsátak í samvinnu ríkis og sveitarfélaganna. Jafnframt verði könnuð samlegðaráhrif þess að leggja þriggja fasa rafmagn samhliða ljósleiðara.
Þá hvetur fundurinn sveitarstjórn til að óska formlega eftir samvinnu við ríkisvaldið um lagningu ljósleiðara um dreifbýli Dalabyggðar á forsendum tillögunnar.
Fundurinn hvetur landeigendur og íbúa dreifbýlis Dalabyggðar til fullrar þátttöku í verkefninu þegar það kemst til framkvæmda.
  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei