Þjóðarátak um söfnun skjala kvenna

DalabyggðFréttir

Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna efna héraðsskjalasöfn, Þjóðskjalasafn og Landsbókasafn – Háskólabókasafn til þjóðarátaks um söfnun og varðveislu á skjölum kvenna. Eru landsmenn hvattir til að afhenda þau á skjalasöfn til varðveislu.
Skjöl kvenna hafa almennt skilað sér verr inn á söfnin en skjöl karla, en eru ekki síður mikilvæg til að varpa ljósi á sögu og líf einstaklinga, fjölskyldna, nærsamfélagsins og þjóðarinnar.
Um er að ræða bréf, dagbækur, handskrifaðar matreiðslubækur, póstkort, teikningar, ljósmyndir, kvæði, smásögur og önnur persónuleg gögn úr eigu kvenna.
Héraðsskjalasafn Dalasýslu er aðili að átakinu. Safnið tekur við skjölum og öðrum gögnum tengdum k0num í Dölum. Einnig er veitt ráðgjöf og aðstoð varðandi frágang og skil á gögnum sem betur eiga heima á öðrum skjalasöfnum.
Lítið er um skjöl kvenna á Héraðsskjalasafni Dalasýslu og ekkert heilstætt safn. Mest er um að ræða einstaka bréf og skjöl sem slæðst hafa inn með öðrum skjalasöfnum. Mikill fengur væri því að frekari gögnum varðandi líf og starf kvenna á svæðinu.
Á safninu eru varðveitt gögn frá Kvenfélagi Saurbæjarhrepps, Kvenfélaginu Fjólu og Sambandi breiðfirzkra kvenna. Ekki er síður mikilvægt að koma gögnum kvenfélaga og annarra félaga kvenna til varðveislu.
  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei