Ljósmynd: Sigmundur Geir Sigmundsson

Íbúalýðræði í Dölunum best á landsvísu

DalabyggðFréttir

Vífill Karlsson doktor í hagfræði og fagstjóri atvinnu- og byggðaþróunarsviðs hjá SSV vann íbúakönnun haustið 2023 – vetur 2024, þar sem meðal annars var leitað vísbendinga um íbúalýðræði sveitarfélaga.

Þá var spurt: „Hversu vel finnst þér sveitarfélagið leita eftir sjónarmiðum eða skoðunum íbúanna?“

Niðurstöðurnar eru þær að nokkur breidd var í svörum á Vesturlandi eftir sveitarfélögum en það sem hefur vakið athygli okkar er að Dalirnir standa sig best á landsvísu hvað varðar að leita eftir sjónarmiðum íbúanna.

Þannig töldu hlutfallslega fæstir þátttakenda í Dölunum sveitarfélagið standa sig illa í að leita eftir sjónarmiðum íbúanna eða um 17% og eru Dalirnir þannig lægstir á landsvísu.

Íbúakönnun landshlutanna var fyrst framkvæmd á Vesturlandi 2004 en síðan á þriggja ára fresti, þetta er í annað sinn sem hún er framkvæmd á landinu öllu.

Við fögnum að sjálfsögðu þessari góðu útkomu sem m.a. má þakka samráði við íbúa í tengslum við verkefnið DalaAuð og umræðu- og samráðsfundum sveitarfélagsins, svo sem í tengslum við áætlanir og stefnur.

Lýðræði snýst um að valdið sé hjá fólkinu og því er það hverju sveitarfélagi mikilvægt að bæði leita til íbúa sem og vera opið fyrir samtali við íbúa þegar eftir því er óskað. Sveitarfélögin byggja á íbúum og ánægðir íbúar skapa betra samfélag. Um leið og við fögnum þessum góða árangri þökkum við íbúum Dalabyggðar fyrir ykkar þátt í þessum árangri og þeim mikla jákvæða stíganda sem orðið hefur frá síðustu könnun.

Athygli hefur vakið að Dalirnir bæta sig einnig að nokkru leyti sem vænlegur búsetukostur á milli kannana en það er líka í samræmi við marga aðra mælikvarða íbúakönnunarinnar sem hafa færst til betri vegar í Dölunum.

Svipmyndir frá fundum – íbúafundur DalaAuðs og kaffispjall atvinnumálanefndar.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei