Samkvæmt mannfjöldatölum Hagstofu Íslands voru íbúar Dalabyggðar alls 665 þann 1. janúar 2013. Er það fækkun um 3,06% frá 1. janúar 2012.
Til samanburðar þá fjölgaði íbúum á landsvísu um 0,7% og á Vesturlandi um 0,1%. Karlar voru 347 og fækkaði þeim um 4,14% milli ára, en konur 318 og fækkaði þeim um 1,85% milli ára.
Íbúar Dalabyggðar 1. janúar 2003 voru 756 og hefur þeim fækkað um 13,07% á þessum 10 árum. Á þessu tímabili var mest fækkun milli ára 5,02% þann 1. janúar 2007 og mest fjölgun 4,11% þann 1. janúar 2008.
Þann 1. janúar voru í Búðardal 252 íbúar og í sveitunum 413 íbúar. Til samanburðar þá bjuggu 93,7% þjóðarinnar í þéttbýli þann 1. janúar á móti 37,9% í Dalabyggð.
Meðalaldur íbúa Dalabyggðar hækkar um eitt ár milli ár, var nú 41,8 ár. Karlar að meðaltali 41,6 ára og konur 42,0 ára.
Börn yngri en 18 ára voru 150 þann 1. janúar, þar af 54 undir skólaaldri. Íbúar 67 ár og eldri voru 118. Fjölmennustu árgangarnir voru 1959 og 1970 með 14 íbúa hvor. Miðað við 100 ár aftur í tímann eru engir íbúar Dalabyggðar fæddir 1913, 1914, 1915, 1919, 1920, 1922 og 1923.
Þegar aldursdreifing er skoðuð kemur í ljós að flestir íbúar voru á sjötugsaldri (93) og fast á eftir íbúar á sextugsaldri (91). Annað athyglisvert er að fleiri íbúar eru á áttræðisaldri (65) en á fertugsaldri (61).
Tíu elstu íbúar Dalabyggðar 1. janúar í aldursröð voru: María Guðmunda Guðbjörg Ólafsdóttir á Þverfelli 96 ára, Guðbjörg Andrésdóttir á Valþúfu 95 ára, Guðrún Esther Magnúsdóttir á Fossi 95 ára, Elísabet Þórólfsdóttir í Arnarbæli 95 ára, Ragnheiður S. Þorsteinsdóttir frá Tindum 94 ára (látin), Hjörtur Einarsson í Neðri-Hundadal 94 ára, Guðjón Benediktsson á Hömrum 91 árs, Eysteinn Þórðarson í Bersatungu 88 ára, Selma Kjartansdóttir á Ormsstöðum 88 ára og Þórdís Oddsdóttir á Ketilsstöðum 88 ára.