Kollubóndinn og Akureyjar

DalabyggðFréttir

Mánudaginn 2. apríl (annan í páskum) kl. 16 verða tveir fyrirlestrar á Byggðasafni Dalamanna tengdir strandmenningu í tilefni menningararfsárs Evrópu 2018.

Halla Sigríður Steinólfsdóttir kollubóndi í Akureyjum mun segja frá lífi kollubóndans og Valdís Einarsdóttir safnvörður segir frá búskap og lífinu í Akureyjum fyrr á tímum.

Allir áhugasamir eru velkomnir, enginn aðgangseyrir.

Árið 2018 er tileinkað menningararfi Evrópu. Markmið Menningararfsár Evrópu er að vekja athygli á og fagna fjölbreyttum menningararfi Evrópu, sem stendur traustum fótum í byggingarlist, fornleifum og fornum ritum en er þó í senn bráðlifandi í dag allt umhverfis okkur. Með því að gera menningararfi hátt undir höfði á árinu verður lögð áherslu á hvernig menningararfurinn byggir upp sterkari samfélög, skapar störf og hagsæld, er mikilvægur fyrir samskipti okkar við aðra hluta heimsins og hvað hægt er að gera til að vernda menningararf okkar.

Minjastofnun Íslands er í forsvari vegna skipulagningar Menningararfsárs Evrópu 2018 hér á landi. Ákveðið hefur verið að hafa „strandmenningu“ sem þema ársins á Íslandi. Undir strandmenningu fellur t.d. handverk, fornleifar, hús og mannvirki, gripir, bátar, sögur og ótal margt fleira.

Byggðasafn Dalamanna og Héraðsskjalasafn Dalasýslu taka þátt í dagskrá Evrópska menningararfsársins árið 2018. Dalirnir eru ekki beint þekktir fyrir hefðbundna sjósókn, en þeim mun meira er um nýtingu sjávarhlunninda og eyjabúskap.

Byggðasafn Dalamanna og Héraðsskjalasafn Dalasýslu munu taka þátt í dagskránni með þrennum hætti. Í fyrsta lagi með fyrirlestrum um ýmislegt sem tengist fjöru- og sjávarnytjum, lífríki og mannlífi meðfram ströndum og í eyjum hér í Dölum. Í öðru lagi verða nokkrar kvöldgöngur sumarsins tengdar hlunnindanýtingu, náttúru og menningarminjum meðfram strandlengju sveitarfélagsins. Í þriðja lagi að vekja athygli gesta Byggðasafns Dalamanna á þeim hluta safnsins sem fjallar um eyjabúskap og hlunnindanýtingu.

  • Menningararfsár Evrópu 2018
  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei