Kyrrstaða er ekki valkostur – frá sveitarstjóra

SveitarstjóriFréttir

Þann 1. febrúar sl. voru liðnir 18 mánuðir, eitt og hálft ár, síðan ég tók við starfi sveitarstjóra í Dalabyggð og þann 8. febrúar sl. var haldinn 20. fundur sveitarstjórnar Dalabyggðar síðan samstarf mitt við þann öfluga hóp hófst. Það hefur ýmislegt áunnist á þeim tíma sem um ræðir og enn fleira er í farvatninu. Það ríður á að samstarf sé gott og svo hefur verið á fyrrgreindum tíma, bæði innan sveitarstjórnar og eins innan starfsmannahópsins okkar í stjórnsýslu Dalabyggð og yfirmenn stofnana,  allt er þetta mikilvægt því samheldni, samstarf og skýr markmið skipta máli. Einnig skiptir það okkur miklu í Dalabyggð að hafa notið samstarfs við SSV og Byggðastofnun í verkefninu sem við köllum DalaAuði og fjölmörg verkefni því tengdu hafa sprottið upp að undanförnu þar sem fjölbreytt verkefni og duglegir einstaklingar hafa blómstrað.

Á þessum tuttugu sveitarstjórnarfundum hef ég farið yfir það sem helst hefur borið á góma á milli funda, þ.e. það sem hægt er að fjalla um opinberlega, og reynt að hafa með í þeirri mánaðarlegu skýrslu myndir sem ég hef tekið við hin ýmsu tilefni, bæði í leik og starfi, en nánast alltaf myndir teknar í Dölunum. Set hér hlekk á skjal sem inniheldur síðustu skýrslu mína, þá sem fylgdi fundargerð 243. fundar sveitarstjórnar Dalabyggðar: Skýrsla sveitarstjóra á fundi 243 en jafnframt læt ég hér fylgja með þau lokaorð sem ég viðhafði í lok skýrslu minnar þar sem sagði m.a.;

„Höfum í huga að ef framþróun á að verða þá þurfum við að vilja og þora að stíga aðeins út fyrir hina mörkuðu eða hefðbundnu leið – a.m.k. um stundarsakir, til þess að framþróun geti átt sér stað því kyrrstaða er ekki valkostur.“

Ástæða þess að ég læt þessi orð falla er sú að við þurfum að leggja okkur öll fram í Dalabyggð, eins og raunar víða um land, við að leggjast á árarnar til að efla innviði. Bæði þá sem heyra undir sveitarfélagastigið, t.d. sbr. áform um uppbyggingu íþróttamannvirkja, og eins gagnvart þrýstingi á ríkisvaldið og í því samhengi nefni ég t.d. samgöngur og vegi, raforkumál, fjarskipti, löggæslu og heilbrigðismál. Frumkvæði einstaklinga getur líka gert gæfumun og erum við lánsöm í Dölunum að hafa yfir að ráða framsýnu og kjarkmiklu fólki sem þorir og kann að ýta við hlutum og framkvæma.

Við þurfum og verðum að þora að troða nýjar slóðir í þeim tilgangi að ná t.a.m. eyrum þeirra sem áhrif hafa á hverjum stað og í þeim efnum þurfum við að hafa kjark til að nálgast málin stundum úr nýrri átt og fara þar með út fyrir hina mörkuðu leið. Þetta er kjarni þeirrar hvatningar sem ég birti hér framar í þessum pistli mínum og aftur, kyrrstaða og aðgerðarleysi er ekki valkostur í mínum huga, hvorki í Dalabyggð né annarsstaðar því við viljum gera gott betra á þessu fallega og jafnframt örugga svæði sem Dalirnir eru.

Með vinsemd og virðingu,

Björn Bjarki Þorsteinsson

sveitarstjóri

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei