Á fundi sveitarstjórnar 17. apríl sl. var samþykkt að slíta viðræðum við Arnarlón ehf. um sölu á eignum Dalabyggðar m.a. vegna ágreinings um veðröð lána. Fulltrúar Arnalóns ehf. hafa gert athugasemdir við þessa afgreiðslu þar sem um hafi verið að ræða drög að samningum til umræðu en ekki endanlegir samningar til samþykktar eða synjunar. Úr þessu fæst ekki skorið nema fyrir dómstólum.
Þann 13. maí sl. lagði Arnarlón ehf. fram tillögu að lausn á málinu án þess að um nýtt tilboð sé að ræða. Tillagan felst í því jörðin Sælingsdalstunga verði undanskilin í viðskiptunum og kaupverð lækki sem nemur andvirði jarðarinnar í tilboðinu.
Hins vegar fái Arnarlón kauprétt á þeim hluta Sælingsdalstungu sem ætlaður er fyrir frístundahúsabyggð og golfvöll. Megin hluti jarðarinnar (um 2.465 ha. af um 2.830 ha.) verður þá undanskilinn sölu og kauprétti, þar með megnið af beitarlandi jarðarinnar.
Kauprétturinn gildi til ársloka 2022 og kaupverð verði hið sama og hlutur jarðarinnar í tilboðinu. Verði kauprétturinn ekki nýttur hafi Arnarlón forkaupsrétt að þessum hluta jarðarinnar.
Gangi þetta eftir fær Dalabyggð sama söluandvirði fyrir eignirnar eins og áður var ætlað en heldur eftir megin þorra lands Sælingsdalstungu.
Seljandalán Dalabyggðar verður á 2. veðrétti á eftir láni Byggðastofnunar.
Málið verður til umfjöllunar á fundi sveitarstjórnar 24. maí nk.
Sveitarstjóri