Laust starf: Lýðheilsufulltrúi Dalabyggðar

DalabyggðFréttir

Dalabyggð – Fullt starf
Umsóknarfrestur: 23.09.2024

Dalabyggð auglýsir stöðu lýðheilsufulltrúa til umsóknar. Um er að ræða nýtt 100% starf innan stjórnsýslu sveitarfélagsins.

 

Helstu verkefni og ábyrgð lýðsheilsufulltrúa Dalabyggðar:

  • Fagleg og rekstrarleg ábyrgð á starfsemi nýrra íþróttamannvirkja í Búðardal sem og á íþróttaaðstöðu utanhúss, á félagsheimili í Búðardal og á félagsmiðstöð.
  • Þróa og stýra íþrótta-, lýðheilsu- og tómstundamálum ásamt forvörnum, verður forvarnarþátturinn unninn í góðu samstarfi við félagsmálanefnd og starfsmann hennar.
  • Fagleg ráðgjöf eftir föngum við þau félagasamtök sem standa fyrir skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi í Dalabyggð.
  • Leiða stefnumörkun um viðfangsefni sviðsins í málaflokknum með fagnefndum og sveitarstjórn.
  • Ábyrgð á æskulýðsstarfi, vinnuskóla, sumarnámskeiði  sem og leikvöllum.
  • Samstarf við félagasamtök og aðkoma að ýmsum viðburðum á vegum sveitarfélagsins í samstarfi og undir stjórn verkefnastjóra/staðgengils sveitarstjóra.
  • Utanumhald varðandi framboð á lýðheilsutengdum þáttum í sveitarfélaginu hverju sinni og eftir árstíðum, s.s. eins og íþróttaæfingum, íþróttaskóla, skátastarfi og þ.h. þannig að framboð verði aðgengilegt á heimasíðu Dalabyggðar.

Æskilegar menntunar- og hæfniskröfur fyrir starf lýðheilsufulltrúa Dalabyggðar

  • Háskólamenntun sem nýtist í starfi, s.s. á sviði kennslu, lýðheilsu, íþrótta og tómstunda.
  • Reynsla af íþrótta- og tómstundastarfi er kostur.
  • Reynsla af rekstri, stjórnun og stefnumótun er kostur.
  • Leiðtogahæfileikar, sjálfstæð vinnubrögð, frumkvæði og skipulagshæfni.
  • Hæfni í mannlegum samskiptum og góðir samstarfs- og samskiptahæfileikar.
  • Gott vald á íslensku í ræðu og riti, kostur ef til staðar er gott vald á enskunotkun.
  • Góð almenn tölvukunnátta.
  • Gerð er krafa um hreint sakavottorð.

Við leitum eftir öflugum og drífandi einstaklingi sem sýnir metnað og frumkvæði í starfi til að stýra afar fjölbreyttum og gefandi verkefnum í þágu samfélagsins í Dalabyggð.

Það er gott að búa í Dalabyggð. Boðleiðir eru stuttar, félagslíf er fjölbreytt og svæðið fullkomið fyrir þá sem vilja búa fjarri erli og óþarfa áreiti. Dalabyggð leggur áherslu á samhent og fjölskylduvænt samfélag þar sem íbúar geta unað vel. Í Dölunum gefast tækifæri til útivistar, líkamsræktar og þátttöku í ýmiskonar félagsstarfi.

Áhugasamir einstaklingar af öllum kynjum eru hvattir til að sækja um. Launakjör eru samkvæmt gildandi samningum Sambands íslenskra sveitarfélaga við viðkomandi stéttarfélag. 

Umsókn skal fylgja náms- og starfsferilsskrá ásamt afriti af prófskírteinum og starfsleyfi ef við á ásamt sakavottorði. Umsókn fylgi einnig kynningarbréf. Öllum umsóknum verður svarað.  

Umsóknarfrestur er til og með 23. september n.k. 

Nánari upplýsingar veitir Björn Bjarki Þorsteinsson sveitarstjóri í síma 660-8245, netfang sveitarstjori@dalir.is – á það netfang sendist einnig umsóknir um starfið.

Sjá einnig: Laus störf

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei