Lífræn byggðaþróun , tilraunaverkefni

DalabyggðFréttir

Fundur um tilraunaverkefni tengt lífrænni byggðarþróun verður í Stjórnsýsluhúsinu í Búðardal kl. 17.00 miðvikudaginn 17. mars. Á fundinn koma Gunnar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Vottunarstofunnar Túns og Stefán Gíslason, UMÍS ehf. Environice, Borgarnesi.
Erindi Stefáns og Gunnars er að ræða hugsanlega þátttöku Dalabyggðar og bænda í Dölum í tilraunaverkefni um lífræna byggðaþróun sem Vottunarstofan Tún er um þessar mundir að reyna að koma á í framhaldi af tillögum í skýrslu um málið sem kom út 2006 fyrir tilstuðlan Byggðastofnunar og fleiri aðila, undir yfirskriftinni „Lífræn framleiðsla. Ónotað tækifæri í atvinnumálum landsbyggðarinnar“.
Hugmyndin er að fá tvö sveitarfélög eða svæði í samstarf, sem miðar að því að teknar verði upp lífrænar aðferðir við framleiðslu landbúnaðar- og náttúruafurða á viðkomandi svæðum. Markmiðið er að auka söluverðmæti viðkomandi afurða um 15-30% og gera framleiðendum kleift að markaðssetja vörur með vottunarmerki lífrænnar framleiðslu og með tilvísun í sérstök landssvæði.
Um væri að ræða a.m.k. tvö býli á hvoru svæði, sem fá myndu nokkurn stuðning til aðlögunar að lífrænni framleiðslu, umfram það sem boðið er upp á skv. búvörusamningum.
Með verkefni sem þessu er stuðlað að því að til verði hópar eða þyrpingar frumframleiðenda á ákveðnu markaðssvæði, þannig að bændur hafi stuðning hver af öðrum og að hagkvæmt verði að vinna úr afurðunum og markaðssetja þær sem sérvöru. Um leið er reynt að skapa fyrirmyndir og sannprófa hagnýtar lausnir sem henta þeim sérstöku aðstæður sem hér ríkja.
Frá upphafi hefur Dalabyggð verið nefnd sem annað þessara tveggja svæða, og nú er komið að því að ganga úr skugga um hvort af geti orðið. Fundurinn á morgun er þannig hugsaður sem fremur óformlegur spjallfundur aðila til að komast nær svari við spurningunni um það hvort raunhæft sé að halda áfram með málið. Verði niðurstaðan sú að láta á þetta reyna, yrði í framhaldinu settur á fót samráðshópur fulltrúa bænda, afurðastöðva, sveitarstjórnar og vottunarstofu. Þessi hópur væri jafnframt stýrihópur verkefnisins.
  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei