Lotta á Ólafsdalshátíð

DalabyggðFréttir

Leikhópurinn Lotta sýnir glænýtt íslenskt leikrit um Mjallhvíti og dvergana sjö á Ólafsdalshátíð sunnudaginn 7. ágúst.En þau sýndu Hans klaufa við góðar undirtektir á Ólafsdalshátíðinni 2010.
Þetta er fimmta sumarið sem Leikhópurinn Lotta setur upp útisýningu en síðastliðin sumur hefur hópurinn tekist á við Dýrin í Hálsaskógi, Galdrakarlinn í Oz, Rauðhettu og Hans klaufa.
Leikgerðina um Mjallhvíti og dvergana sjö gerði Anna Bergljót Thorarensen. Þetta er fyrsta leikritið sem hún skrifar en hún hefur verið meðlimur í Leikhópnum Lottu frá stofnun hans árið 2006. Ný tónlist hefur einnig verið samin fyrir verkið en auk Önnu koma þar að verki Rósa Ásgeirsdóttir, Oddur Bjarni Þorkelsson og Baldur, Helga og Snæbjörn Ragnarsbörn.

Alls leika fimm leikarar í sýningunni auk tónlistarmanns sem er inni á sviðinu allan tímann. Þessir fimm leikarar skipta á milli sín öllum 12 hlutverkunum og stundum þurfa meðal annars að vera 7 dvergar inni á sviðinu í einu. Sjón er sögu ríkari. Herlegheitunum er síðan leikstýrt af dúettinum Oddi Bjarna Þorkelssyni og Margréti Sverrisdóttur, en þau eru einmitt nýir umsjónarmenn Stundarinnar okkar.

Sýningin er um klukkustund að lengd, gott er að klæða sig eftir veðri þar sem sýnt er utandyra og um að gera að taka með sér teppi til að sitja á. Þá mælir Lotta með því að foreldrar taki myndavélina með þar sem áhorfendur fá að hitta persónurnar úr leikritinu eftir sýningu.
Nánari upplýsingar um sýninguna má finna á heimasíðu leikhópsins og í síma 770 0403.
  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei