Miðbraut lokuð part úr degi 29.07.2023

DalabyggðFréttir

Miðbraut verður lokuð laugardaginn 29. júlí milli ca. 12:300 – 16:00 vegna Pósthlaupsins en endamarkið verður staðsett við pósthúsið. 
Pósthlaupið er um 50 km utanvegahlaup sem hefst við Bálkastaði í Hrútafirði. Hlaupin er gömul landpóstaleið yfir Haukadalsskarð vestur í Haukadal og sem leið liggur niður dalinn, meðfram Haukadalsvatni, niður á reiðstíg við Vestfjarðaveg í Dölum og eftir honum og Vestfjarðavegi alla leið í Búðardal. Í boði er einnig að hlaupa hálfa leið, um 26 km eða síðasta spölinn í Búðardal, 7 km.
Nánari upplýsingar um hlaupið: Pósthlaupið 2023

Við hvetjum íbúa til að fylgjast með, hvetja og taka þátt eða einfaldlega skella sér í hlaupið. Auk hlaupsins verður hoppukastali fyrir börnin, Glímufélag Dalamanna verður á svæðinu og félagar taka nokkur skref, örsýning á pósthúsinu, þrautabraut og gleði.

Örsýning Héraðsskjalasafns Dalasýslu og Byggðasafns Dalamanna í tilefni Pósthlaupsins 2023 stendur dagana 24. júlí – 4. ágúst 2023 á pósthúsinu í Búðardal. Pósthúsið er opið alla virka daga kl. 10-14. Samstarfsaðilar safnsins eru Pósthúsið í Búðardal, Ungmennafélagið Ólafur pái og Björgunarsveitin Ósk.
Að ári er stefnt á ljósmyndasýningu í tengslum við pósthlaupið. Því er sérstaklega óskað eftir myndum og frásögnum af sem flestum landpóstum og póstafgreiðslufólki sem starfað hafa í Dölum. Hægt er að hafa samband við safnvörð á skrifstofu Dalabyggðar eða á safnamal@dalir.is

 

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei