Milli jóla og nýárs

DalabyggðFréttir

Að vanda verður ýmislegt um að vera í Dölunum milli jóla og nýárs. Jólaball Lions, flugeldasala, félagsvist, spurningakeppni og síðan áramótabrennur.

Jólaball Lions

Fimmtudaginn 27. desember verður hið árlega jólaball Lions haldið í Dalabúð og hefst kl. 17:30. Boðið verður uppá heitt súkkulaði með rjóma. En eins og venjulega er fólk beðið um að koma með smákökur eða eitthvað annað gott til hafa með. Jólasveinar mæta á svæðið og aldrei að vita hvað þeir hafa í pokanum sínum.

Flugeldasala

Björgunarsveitin Ósk verður með sína árlegu flugeldasölu í húsnæði sínu að Vesturbraut. Opið verður eftirtalda daga:
28. desember kl. 15-20
29. desember kl. 14-20
30. desember kl. 14-22
31. desember kl. 10-15
6. janúar kl. 14-18
Flugeldasalan er öflugasta tekjuleið björgunarsveitarinnar. Þeim sem ekki hafa áhuga á flugeldum, en langar að styrkja björgunarsveitina geta þess í stað greitt inn ár reikning sveitarinnar 0312-13-300062, kt. 620684-0909.

Félagsvist í Tjarnarlundi

Ungmennafélagið Stjarnan stendur fyrir félagsvist í Tjarnarlundi laugardaginn 29. desember kl. 20, húsið opnar kl. 19:30. Verð er 700 kr og sjoppa á staðnum. Gott að hafa í huga að enginn posi er á staðnum og því rétt að mæta með reiðufé.

Maltkviss í Tjarnarlundi

Þaulsetur sf. stendur fyrir spurningakeppni í Tjarnarlundi sunnudaginn 30. desember kl. 20. Verð er 500 kr fyrir liðið (2-3 í liði). Fjölskylduvænar spurningar. Stjórnandi verður Sveinn Ragnarsson á Svarfhóli í Geiradal. Verðlaun og veitingar undir væntingum. Allir velkomnir. Eingöngu hægt að greiða með seðlum og klinki þar sem enginn posi er á staðnum.

Áramótabrenna í Búðardal

Kveikt verður í brennunni á gamla fótboltavellinum í Búðardal kl. 20:30 á gamlársdag. Flugeldasýning verður í boði Dalabyggðar eftir að kveikt hefur verið í brennunni.

Áramótabrenna í Saurbænum

Kveikt verður í brennunni neðan við Þverfell í Saurbæ um miðnætti á gamlársdag.
  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei