Nágrannar í Reykhólasveit og Ströndum.

DalabyggðFréttir

Í samræmi við umræðu sveitarstjórnarmanna kom fram á nýliðnu íbúaþingi áhugi Dalamanna fyrir auknu samstarfi við nágranna okkar í Reykhólasveit og Strandabyggð.
Með ályktanir íbúaþings í farteskinu fóru því Sveinn Pálsson sveitarstjóri, Ingveldur Guðmundsdóttir formaður byggðaráðs og Halla Steinólfsdóttir oddviti í heimsókn 5. febrúar s.l. að Reykhólum til fundar við sveitarstjóra og sveitarstjórnarmenn Reykhólahrepps. Á fundinum skiptust sveitarstjórnarmenn á reynslusögum úr hvorri sveit fyrir sig.
Eftir gott spjall og góða kynningu við gestgjafana vorum við svo heppin að lenda á súpufundi heimamanna. Á slíkum fundum er boðið upp á súpu og kynningu á starfandi fyrirtækjum í sveitarfélaginu. Að þessu sinni var það Gullsteinn ehf. sem kynnti sína starfsemi og var það mjög áhugavert.
Á sömu forsendum voru sóttum við heim Strandamenn þann 17. febrúar að Hólmavík. Þar var sömuleiðis tekið vel á móti okkur og áttum við gott spjall við þessa nágranna okkar.
Ótímabært er að draga ályktanir um frekara samstarf af þessum fundum, en það er alltaf gott að eiga góða nágranna og góð samskipti við þá.
Auk þessara heimsókna til nágranna okkar Reykhólabúa og Strandamanna áttum við einnig góðan fund með brottfluttum Dalamönnum og velunnurum Dalanna í Þjóðarbókhlöðunni 14. febrúar í tengslum afhendingu undirskriftalista til innanríkisráðherra.
Halla S. Steinólfsdóttir
oddviti
  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei