Náttúrubarnaskólinn í Sævangi

DalabyggðFréttir

Náttúrubarnaskólinn stendur fyrir margvíslegum skemmtilegum viðburðum á Sauðfjársetrinu í Sævangi á Ströndum í sumar.
Námskeiðum fyrir náttúrubörn á öllum aldri, kvöldgöngum, fuglafjöri, spurningakeppnum, sagnaskemmtunum og mörgu fleira.
Á svæðinu í kringum Sævang er fuglalífið ótrúlega fjölbreytt og fuglarnir orðnir vanir mannaferðum. Hægt er að klappa æðarkollunni Kollfríði þar sem hún liggur á hreiðri sínu. Teistur verpa í manngerða kassa þar sem hægt er að fylgjast með teistum og ungunum þegar þeir koma úr eggjunum, en þeir halda til í kössunum í mánuð.
Í Náttúrubarnaskólanum er líka bruggað jurtaseyði, sent flöskuskeyti, litað með jurtalitum og sagðar draugasögur í sagnahúsinu sem stendur niðri í fjöru, en í því er líka að finna eina plastdýragarðinn á Íslandi.
Börn vita ansi margt um náttúruna og það er gaman að vera með þeim á námskeiðunum þar sem vettvangurinn er ævintýraheimar fjörunnar.
Annars snýst Náttúrubarnaskólinn helst um að skemmta sér, upplifa og læra með því að sjá og snerta. Veita öllum þeim undrum eftirtekt sem eru rétt við tærnar á manni. Það er ótrúlegt hvað er margt skrítið í náttúrunni og hvað litlir hlutir geta verið stórmerkilegir þegar vel er að gáð. Það þarf líka að læra að bera virðingu fyrir náttúrunni.
Náttúrubarnaskólinn var fyrst starfandi sumarið 2015 og er þetta því annað árið sem hann er starfræktur. Hefur honum verið vel tekið.
Fimmtudagurinn 14. júlí
Náttúrubarnanámskeið frá kl. 13:00-17:00 með fuglaþema, verð 3.000 kr.
Þriðjudagur 19. júlí
Kvöldganga á Kirkjubólsfjall frá Sævangi kl. 20:00. Kökur og kaffi eftir gönguna, verð 1.000 kr.
Miðvikudagur 20. júlí
Jurtanámskeið fyrir fullorðna þar sem við munum fræðast um notkun plantna á fyrri tímum, tínslu og varðveislu kl. 19:30-22:30 í Sævangi, búin verða til 4 mismunandi jurtaseyði sem þjóna mismunandi tilgangi. Hafdís Sturlaugsdóttir kennir á námskeiðinu, verð 3.000 kr. kaffi og kökur innifaldar.
Fimmtudagur 21. júlí
Náttúrubarnanámskeið frá kl. 13-17, verð 3000 kr.
Helgin 23.-24. júlí
Helgarnámskeið Náttúrubarnaskólans 13-17 báða dagana, brot af því besta, verð 6.000 kr.
Þriðjudagur 26. júlí
Kaffikvörn Náttúrubarnaskólans í Sævangi, skemmtilegur spurningaleikur fyrir alla fjölskylduna, vöffluhlaðborð fyrir 1.200 kr.
Fimmtudagur 28. júlí
Náttúrubarnanámskeið með galdraþema kl. 13-17, verð 3.000 kr.
Ennþá geta bæst við fleiri skemmtilegir viðburðir og verða þeir auglýstir þegar nær dregur á Facebook-síðu Náttúrubarnaskólans.
Skráning á viðburðina fer fram í síma 661-2213 hjá Dagrúnu eða á natturubarnaskoli@gmail.com.
  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei