Héraðsskjalasafn Dalasýslu verður með sýningu í tilefni norræna skjaladagsins laugardaginn 9. nóvember kl. 13-17 í Byggðasafni Dalamanna á Laugum í Sælingsdal.
Yfirskrift skjaladagsins að þessu sinni er „Fjársjóðir úr fórum skjalasafnanna“. Í héraðsskjalasafninu eru eintómir fjársjóðir og gersemar og því úr vöndu að ráða. Fyrir valinu varð nýjasta viðbót safnsins, vísnasafn Einars á Laugum.
Í lok október var safninu afhent gögn Einars Kristjánssonar fv. skólastjóra á Laugum og héraðsskjalavarðar. Þar á meðal er vísnasafn Einars, allnokkuð að umsvifum. Hefur það að geyma vísur og kvæði ort af Dalamönnum frá ýmsum tímum. Meðal annars hefur Einar lagt sig eftir að safna kveðskap Dalakvenna.
Vísnasafn Einars verður grunnurinn að sýningu norræna skjaladagsins 2013, auk annars kveðskapar. Björn St. Guðmundsson mun flytja ljóð og er öðrum velkomið að fylgja í fótspor hans. Samhliða sýningu Héraðsskjalasafnsins verður Byggðasafn Dalamanna opið fyrir gesti.
Allir eru velkomnir á sýningu héraðsskjalasafnsins á norræna skjaladaginn.