Norræni skjaladagurinn 2017

DalabyggðFréttir

Héraðsskjalasafn Dalasýslu verður með dagskrá í tilefni norræna skjaladagsins laugardaginn 11. nóvember kl. 15 á Byggðasafni Dalamanna.
Þar verður fjallað um ýmislegt tengt yfirskrift skjaladagsins „Hús og heimili“. Meðal annars fjallað um uppbyggingu Glæsivalla í Miðdölum, samsetningu á heimilum skv. manntölum, flutninga húsa og heimila og annað sem upp kemur í spjalli.
Efni tengt viðfangsefni dagsins er kynnt á sameiginlegri heimasíðu héraðsskjalasafna og Þjóðskjalasafns Íslands. Nálgun safnanna er fjölbreytt á þema ársins og margt fróðlegt þar að glugga í.
Þótt lög gildi um opinbera skjalavörslu, er ekki nægilega áréttað að einstaklingar í félögum, stofnunum og fyrirtækjum ráða miklu um hvað verður um gögn sem þeir vinna með eða varðveita. Eitt markmiða skjaladagsins er að efla vitund fólks um að skjalasöfnin séu tryggir vörslustaðir skjala af hvaða tagi sem er.
Fundargerðabækur, bréf, myndir og fleiri skjöl af ýmsu tagi eiga erindi á skjalasöfn. Því er fólk hvatt til að hafa samband við næsta héraðsskjalasafn, eða Þjóðskjalasafn, ef það hefur undir höndum skjöl sem það veit ekki hvað gera á við, eða vill koma í örugga vörslu.
Öll gögn sveitarstjórna og sóknarnefnda eru þó skilaskyld til héraðsskjalasafna.

skjaladagur.is

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei