Ólafsdalur sumarið 2016

DalabyggðFréttir

Opið er í Ólafsdal alla daga kl. 12-17 fram til 14. ágúst. Kaffi, vöfflur, Erpsstaðaís o.fl. í boði. Staðarhaldarar eru þeir sömu fyrir Ólafsdalsfélagið og í fyrra, það er Elfa Stefánsdóttir og Haraldur Baldursson. Hafa má samband í síma 821 9931 og á netfanginu elfa@hbt.is
Málverkasýning Guðrúnar Tryggvadóttur „Dalablóð“ opnar laugardaginn 23. júlí kl. 14 eins og áður hefur komið fram hér á vefnum.
Nú eru fjögur ár síðan Ólafsdalsgrænmetið fékk lífræna vottun frá vottunarstofunni Túni. Nú er sumt af grænmetinu tilbúið og annað verður það fljótlega. Þar er meðal annars til sölu grænkál, blómkál, hnúðkál, rauðkál, spergilkál og rófur.
Árleg Ólafsdalshátíð verður haldin laugardaginn 6. ágúst. Aðaldagskráin verður kl. 13-17 og verður hún nánar kynnt síðar. Meðal annars mun Lína langsokkur (Ágústa Eva Erlendsdóttir) mæta á svæðið til að skemmta börnum á aldrinum 0-99 ára. Þá mun Drengjakór íslenska lýðveldisins mæta með nýja dagskrá og Guðrún Tryggvadóttir kynna sýningu sína „Dalablóð“. Lífrænt vottað Ólafsdalsgrænmeti verður til sölu, glæsilegt Ólafsdalshappdrætti og vandaður handverks- og matarmarkaður. Veitingar. Ókeypis verður inn á hátíðina að vanda og allir velkomnir.
Ólafsdalsfélagið er nú með nýjan vef þar sem hægt er að fylgjast með starfsemi félagsins og einnig á Facebook.
Framundan eru miklar framkvæmdir Minjaverndar við endurbyggingu flestra húsa sem voru í Ólafsdal á blómatíma Ólafsdalsskólans, í kringum 1900. Þann 19. ágúst í fyrra var gengið frá samkomulagi á milli fjármálaráðuneytisins, Ólafsdalsfélagins og Minjaverndar um þá endurreisn. Alls er áætlað að endurbyggja 8-9 byggingar sem voru í Ólafsdal. Ætlunin er að sögu staðarins og menningarminjum verði áfram gerð góð og aukin skil þar sem Ólafsdalsfélagið mun gegna þar lykilhlutverki. Jafnframt verður frjálst aðgengi almennings tryggt.Er stefnt að því að endurreisn Ólafsdals verði lokið fyrir 140 ára afmæli Ólafsdalsskólans árið 2020. Áætlaður kostnaður er um 400 milljónir króna.
Landmótum ehf. vinnur nú að deiliskipulagi í Ólafsdal fyrir Minjavernd vegna þeirrar uppbyggingar sem framundan og annarrar nýtingar. Þá er hafin fornleifaskráning á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði í umsjón Birnu Lárusdóttur fornleifafræðingshjá Fornleifastofnun Íslands. Þá er væntanleg skýrsla um ræktunarminjar í Ólafsdal sem unnin er af prófessor Bjarna Guðmundssyni og Ragnhildi Sigurðardóttur umhverfisfræðingi. Þá er nú haldið áfram með vinnu við fræðslustíg og kortlagningu gönguleiða í Ólafsdal.
Til að tryggja heilsársstarfsemi í Ólafsdal og nýta þær fjárfestingar sem lagðar verða í staðinn, er einnig mikilvægt að bæta veginn inn Ólafsdalshlíðina samhliða uppbyggingunni, um 6 km vegalengd.
Í Ólafsdalsfélaginu eru nú á fjórða hundrað félagar og áhugasamir geta haft samband við Rögnvald Guðmundsson formann félagsins á netfangið rognvaldur@rrf.is eða í síma 693 2915.
  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei