Óskað eftir athugasemdum um framtíð Breiðafjarðar

DalabyggðFréttir

Nú liggur fyrir samantekt Breiðafjarðarnefndar á framvindu og niðurstöðum verkefnisins sem gengið hefur undið nafninu “Framtíð Breiðafjarðar” og nefndin vann að á tímabilinu 2019-2020. Breiðafjarðarnefnd hefur sent samantektina til umsagnar sveitarstjórna við fjörðinn. Samantektin er auk þess birt á heimasíðu nefndarinnar og óskað eftir athugasemdum íbúa.

Smellið hér til þess að nálgast skjalið, “Framtíð Breiðafjarðar, samantekt og niðurstöður Breiðafjarðarnefndar”. 

Athugasemdum skal skil á netfangið breidafjordur@nsv.is. Móttaka athugasemda verður staðfest með tölvupósti. Frestur til þess að gera athugasemdir er til 19. desember 2020.

Að umsagnarfresti liðnum verður lokahönd lögð á samantektina og umsagnir sveitarstjórna og athugasemdir íbúa birtar í sérstökum kafla aftast í samantektinni. Athugið að athugasemdir verða birtar undir nafni. Lokaútgáfu samantektarinnar, ásamt niðurstöðum nefndarinnar, verður loks skilað til umhverfisráðherra sem svo tekur ákvörðun um næstu skref.

Breiðafjörður er verndaður með sérstökum lögum nr. 64/1995 um vernd Breiðafjarðar. Lögin gera ráð fyrir að Breiðafjarðarnefnd sé umhverfisráðherra til ráðgjafar um verndarsvæði Breiðafjarðar.

Í samræmi við Verndaráætlun Breiðafjarðar 2014-2019, sem samþykkt af sveitarfélögunum sjö við fjörðinn, ákvað Breiðafjarðarnefnd að ekki væri seinna vænna en að velta alvarlega fyrir sér möguleikum sem miða að varðveislu náttúru og menningar svæðisins og því að styrkja enn frekar samfélögin umhverfis fjörðinn, þar á meðal atvinnulíf.

Í byrjun árs 2019 samþykkti Breiðafjarðarnefnd að hefja ítarlega kynningar- og samráðsvinnu sem hefur síðan gengið undir nafninu „Framtíð Breiðafjarðar“. Nefndin einsetti sér strax í upphafi að móta sér ekki endanlega skoðun á því hvaða leiðir henni þættu fýsilegastar, heldur hvetja íbúa, sveitarstjórnir og aðra hagsmunaaðila til málefnalegs samtals og samráðs. Þannig yrðu mestar líkur á því að hægt yrði að finna samhljóm sem tæki tillit til mismunandi sjónarmiða varðandi framtíð Breiðafjarðar.

Í anda samráðs stóð nefndin fyrir málþingi í Tjarnarlundi í Dalabyggð í október 2019, þar sem mögulegar leiðir fyrir framtíð Breiðafjarðar voru kynntar og hvaða afleiðingar hver þeirra gæti mögulega haft í för með sér. Í kjölfarið bauð nefndin til opinna fræðslufunda í sveitarfélögum við fjörðinn auk sérstakra funda með hverri og einni sveitarstjórn við fjörðinn. Í samráðsferlinu fengu nefndarmenn að heyra mismunandi sjónarmið sveitarstjórna, hagsmunaaðila og almennings, sem skýrði betur hvaða leiðir gætu komið til greina fyrir framtíð svæðisins og hvar helstu ágreiningsefnin lægju.

Nefndin er sérlega þakklát þeim íbúum, sveitarstjórnafulltrúum og öðrum sem hafa látið sig málið varða, spurt spurninga, viðrað hugmyndir sínar, væntingar, vonir, áhyggjur og afstöðu.

Meginmarkmið vangaveltna nefndarinnar um framtíð Breiðafjarðar er að tryggja verndun og sjálfbæra nýtingu fjarðarins og að umhverfis hann þrífist áfram öflug samfélag. Sveitarfélög á svæðinu tilnefna meirihluta nefndarmanna í Breiðafjarðarnefnd og leggur nefndin höfuðáherslu á að heimamenn hafi áfram ríka aðkomu að stjórnun svæðisins og eigi meirihluta í þeim nefndum og ráðum sem mögulega koma að mótun framtíðar Breiðafjarðar og stýringu svæðisins.

 

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei
X
X