Páskakveðja frá sveitarstjóra

DalabyggðFréttir

Ágætu íbúar Dalabyggðar, um leið og ég óska ykkur gleðilegra páskahátíðar þá langar mig til þess að koma nokkrum fréttamolum á framfæri varðandi það sem í gangi er á vegum sveitarfélagsins og hvað sé fram undan.

Glæsileg árshátíð Auðarskóla

Ég vil byrja á að þakka nemendum og öllum þeim sem komu á framkvæmd árshátíðar Auðarskóla og jafnframt koma á framfæri hrósi til þessa hóps fyrir alla framkvæmd í kringum árshátíðina. Við megum svo sannarlega vera stolt af okkar fólki og mikilvægt að við munum að skólinn er fjöregg hvers samfélags og mikilvægt að sem best sé stutt við alla starfsemi skólans á hverjum tíma.

Aðalskipulag

Sveitarstjórn samþykkti tillögu að aðalskipulagi Dalabyggðar 2020 til 2032 á fundi sínum þann 9. mars sl. Er skipulagið nú til yfirferðar hjá Skipulagsstofnun og vonandi fær skipulagið formlega staðfestingu á næstu vikum. Það að klára vinnu við aðalskipulag er stór áfangi og margir sem hafa komið að þessu umfangsmikla verkefni og miklu vinnu. Vil ég þakka öllum hlutaðeigandi f.h. Dalabyggðar um leið og ég set fram ósk mína um að nýtt aðalskipulag verði samfélaginu okkar til framdráttar á komandi árum.

Uppbygging íþróttamannvirkja í Búðardal

Vinna við undirbúning og hönnun íþróttamannvirkja í Búðardal gengur vel og er stefnt að því að á næstu vikum ljúki þeirri vinnu og skilað verði inn gögnum til byggingafulltrúa og umsókn um byggingarleyfi. Aftur á móti er staðan á fjármálamörkuðum þannig að hægja þarf á upphafi framkvæmdarinnar sjálfrar, segja má að 11. og 12. hækkun stýrivaxta í á skömmum tíma hafi leitt til þessa. Þreyfingar og samtöl um fjármögnun halda engu að síður áfram og er nú unnið að gerð 10 ára rekstrar- og fjárfestingaráætlunar fyrir samstæðu Dalabyggðar til að undirbyggja aðgerðir í rekstri og framtíðar fjárfestingum enn styrkari stoðum en gert er í fyrirliggjandi áætlunum.

DalaAuður

Umsóknafresti í 2. úthlutun frumkvæðisstyrkja á vegum DalaAuðs lauk nú um mánaðarmótin síðustu. 24 umsóknir bárust í þetta sinn og er það verulega ánægjulegt að sjá í verki þann mikla kraft og hugmyndaauðgi sem í Dalamönnum býr. Nú fer af stað úrvinnsla og er stefnt að því að úthlutun fari fram í byrjun júní.

Jörvagleði

Jörvagleðin okkar verður sett þann 19. apríl n.k. (síðasta vetrardag). Búið er að setja saman mjög áhugaverða dagskrá þar sem kennir ýmissa grasa og stefnir í að til verði dagskrá sem spanna mun nær heila viku af menningarviðburðum og langflestir listamanna koma úr héraði, já geri önnur héruð betur en Dalamenn. Meðal viðburða má  nefna t.d. uppfærslu Leikfélags Laxdæla á Vodkakúrnum sem verður frumsýndur föstudaginn 21. apríl í Dalabúð. Ég vil hvetja íbúa og vildarvini Dalabyggðar til þess að sækja þá viðburði sem þið hafið tök á og styðja þannig við það kraftmikla menningarstarf og mannlíf sem í Dalabyggð þrífst.

Skipulagsmál

Samið hefur verið í VSÓ Ráðgjöf um að sinna verkefnum skipulagsfulltrúa fyrir Dalabyggð, Reykhóla og Strandir tímabundið eða meðan unnið er að endurskipulagningu á starfinu. Það er Hlynur Torfi Torfason sem sinnir verkefninu og er hann með netfangið skipulag@dalir.is sem er sama netfang og skipulagsfulltrúaembættið hefur haft til þessa.

Vegamál

Það má segja að ákveðinn ótti hafi gert vart við sig í aðdraganda þess að fjármálaáætlun var kynnt af hálfu ríkisstjórnarinnar m.t.t. þess að ekki var búið að bjóða út vegakafla á Klofningsvegi sem er á dagskrá ársins. Forsvarsmenn Vegagerðarinnar hafa fullvissað okkur um að sá ótti sé ástæðulaus og á næstu vikum verði farið í útboð á tæplega 9 km. kafla. Það er ánægjuefni en engu að síður er það áhersla okkar að reynt verið eftir fremsta megni að lengja framkvæmdina eins og kostur er því í stóra samhengi þessarar leiðar sem um ræðir þá eru 9 km. ekki langur kafli. Vonandi verður hlustað á okkar raddir.

Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru varðandi það sem á döfinni er hjá okkur í Dalabyggð. Það er nóg um að vera og spennandi tímar fram undan. Það er sannfæring mín að umferð um Dalina nái hæstu hæðum á komandi vikum og mánuðum og þurfum við að vera í stellingum öll sem eitt til að gera heimsókn gesta til okkar sem ánægjulegasta.

Með vinsemd og góðum páskakveðjum,

Björn Bjarki Þorsteinsson, sveitarstjóri

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei