Rekstur Dalabyggðar í jafnvægi og grundvöllur fyrir mikilvæg verkefni styrktur

SveitarstjóriFréttir

Ársreikningur Dalabyggðar 2023 var samþykktur við seinni umræðu á 245. fundi sveitarstjórnar Dalabyggðar sem haldinn var fimmtudaginn 11. apríl 2024.

Það má segja að niðurstaða ársreiknings Dalabyggðar fyrir árið 2023 sé viðunandi m.v. aðstæður. Rekstrarniðurstaða A hluta er jákvæð um sem nemur 48,1 millj.kr. á móti áætluðum afgangi upp á 1,0 millj.kr. og rekstrarniðurstaða A og B hluta er jákvæð um sem nemur 106,7 millj.kr. en áætlun með viðaukum gerði ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu upp á 63,1 millj.kr. og er því niðurstaðan 69,4% yfir áætlun. Breyting rauntalna í rekstrarniðurstöðu A og B hluta á milli áranna 2022 og 2023 er jákvæð um 120 millj.kr.

Eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2023 nam 1.034,0 millj.kr. samkvæmt efnahagsreikningi og eigið fé A hluta nam 921,3 millj.kr. Rekstrartekjur Dalabyggðar á árinu 2023 námu 1.473 millj. kr. samkvæmt ársreikningi fyrir A og B hluta, en þar af námu rekstrartekjur A hluta 1.123 millj. kr.

Laun samtals í A og B hluta á árinu 2023 voru 659,9 millj.kr. á móti áætlun með viðaukum upp á 664,0 millj.kr. eða 0,6% undir áætlun. Launahlutfall á árinu 2023 var 45,0%. Heildarfjöldi starfsmanna í árslok 2023 var 72 á móti 85 í árslok 2022.  Lífeyrisskuldbinding hækkaði á milli ára, gert var ráð fyrir 10 millj.kr. hækkun en raunin varð 47,9 millj.kr., þar af vegna viðbótarframlags til Brúar lífeyrissjóðs upp á kr. 18,3 millj.kr., hefur það verulega áhrif á rekstrarniðurstöðu ársins nú eins og fyrri ár þær breytingar sem verða endurtekið á lífeyrisskuldbindingum.

Annar rekstrarkostnaður í A og B hluta var 593,5 millj.kr. á árinu 2023 á móti áætlun með viðaukum upp á 741,6 millj.kr. eða 20,0% undir áætlun. Hlutfall annars rekstrarkostnaðar er 40,2% á árinu 2023.

Afskriftir í A og B hluta á árinu 2023 voru samtals 40,9 millj.kr. Fjármagnsgjöld í A og B hluta voru samtals 25,7 millj.kr. á árinu 2023.

Skuldahlutfall A og B hluta var í árslok 2023 47% og skuldaviðmið var 19% sem er mjög lágt í öllum samanburði. Ljóst er að ef framkvæmdir við íþróttamannvirki fara af stað þá fer skuldahlutfall Dalabyggðar og skuldaviðmið upp en ekki á neinum tímapunkti upp fyrir gildandi hámark sem er 150%. Þungi afborgana vegna langtímaskulda hefur breyst verulega og gefur Dalabyggð aukið svigrúm til fjárfestinga þar með, sbr. áætlanir um uppbyggingu íþróttamannvirkja sem gert er ráð fyrir að farið verði í samkvæmt fyrirliggjandi og samþykktum áætlunum sveitarstjórnar.

Á árinu 2022 gerði Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga athugasemd við það að í áætlun Dalabyggðar fyrir árið 2023 væri framlegð sú sem í áætlun ársins birtist of lág, þá 9,8%, en ætti lægst að vera 10,5% samkvæmt lágmarksviðmiðum nefndarinnar. Samkvæmt niðurstöðu ársreiknings 2023 og í fyrirliggjandi áætlun fyrir komandi ár er þessi mælikvarði, sem og aðrir, í lagi.

Það má ljóst vera að daglegur rekstur A hluta samstæðu Dalabyggðar byggir á traustum grunni eins og hann er í dag þó viðkvæmur sé og þolmörk ekki mikil gagnvart óvæntum útgjöldum. Brugðist hefur verið við af festu gagnvart þeim þáttum sem nefndir voru við afgreiðslu ársreiknings Dalabyggðar fyrir árið 2022 hvað varðar B hluta stofnanir og má þar helst nefna rekstur Silfurtúns, Dalaveitna (ljósleiðarahluta) og félagslegs húsnæðis. Með þeim aðgerðum sem farið hefur verið í er búið að stöðva „blæðingu“ úr sjóðum Dalabyggðar um sem nemur allt að 45 millj.kr. árlega og treysta þannig rekstrargrundvöll sveitarsjóðs til framtíðar sem því nemur.

Þær aðgerðir og sá árangur sem hefur náðst í rekstri Dalabyggðar gerist ekki af sjálfu sér. Er sveitarstjórn og starfsfólki Dalabyggðar þakkað fyrir samstarfið í kringum þær aðgerðir sem farið hefur verið í sem og fyrir gott samstarf það sem af er kjörtímabilsins.

Björn Bjarki Þorsteinsson – sveitarstjóri

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei