Sauðafellshlaupið 2016

DalabyggðFréttir

Laugardaginn 18. júní kl. 12 verður þriðja Sauðafellshlaupið. Hlaupið hefst og endar við brúsapallinn á Erpsstöðum.
Hlaupið er eftir þjóðvegi 60 að Fellsenda og upp veg 585. Í Fellsendabrekkunni er stefnan tekin upp á Sauðafellið, þvert fellið niður að bænum Sauðafelli. Þá er komið á þjóðveg 60 að nýju og hringnum lokað er komið er að Erpsstöðum á ný. Hlaupaleiðin er um 12 km.
Þetta er skemmtileg leið, ekki mjög erfið þó helmingur hennar sé utanvegar eða eftir slóðum, útsýni er fallegt yfir sveitina og út Hvammsfjörðinn. Þeir sem vilja frekar hlaupa eftir vegi, geta tekið hringinn eftir þjóðvegunum 60 og 585, þá skiljast leiðir hlaupara við Fellsenda, sú leið er um 15 km. Það verður ein drykkjarstöð á leiðinni, við bæinn Fellsenda.
Boðið verður upp á barnagæslu á Erpsstöðum meðan á hlaupinu stendur, leikir og dýrin á bænum skoðuð. Skrá þarf í gæsluna með því að senda skilaboð hérna á síðunni.
Eftir hlaupið býður Rjómabúið Erpsstaðir uppá kaffi og rjómaís og allir fá orkudrykk er þeir koma á endastöð. Eftir hlaup er hægt að skella sér á Lauga í sund (36 km); frítt fyrir þátttakendur, heimsækja Eiríksstaði, eða kíkja á aðra áhugaverða staði í nágrenninu. Tjaldstæði eru á Erpsstöðum, í Búðardal og á Laugum í Sælingdal. .
Tilkynna þarf þátttöku á fb-síðu hlaupsins, en þátttökugjald er 1.000 kr. Gott er að mæta tímanlega og ganga frá skráningu og fá afhent nafnspjald sem hlaupið er með.
Það sem verður afgangs af þátttökugjaldinu þegar útlagður kostnaður hefur verið greiddur mun renna til einhverra félagasamtaka í héraði. Eftir Sauðafellshlaupið 2014 færðum við harmonikkufélaginu Nikkólínu 25.000 kr að gjöf. Og eftir hlaupið 2015 var Skátafélaginu Stíganda færðar 18.000 kr í ferðasjóð
Árið 2014 tóku 40 manns þátt og 2015 voru 32 þátttakendur.

Sauðafellshlaupið 2016

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei