|
Fræðslumiðstöð Vestfjarðar ætlar að að bjóða upp á svokallað smáskipanám (sem áður var gjarnan nefnt „pungapróf“) á Hólmavík og Reykhólum á næstunni.
Þeir sem ljúka slíku námi, sem er samkvæmt reglugerð nr. 175/2008 um skipstjórnar- og vélstjórnarréttindi á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum og aðalnámsskrá framhaldsskóla – skipstjórnarnám frá júlí 2009, öðlast rétt til að fá útgefið skírteini sem skipstjóri/stýrimaður á skipum styttri en 12 metrar að skráningarlengd í strandsiglingum, eftir 12 mánaða siglingatíma (smáskipaskírteini).
Kennt verður á Hólmavík helgina 17. – 19. mars og á Reykhólum helgina eftir páska, 14.-15. apríl. Þannig ætti að vera gerlegt fyrir þátttakendur á Ströndum, í Dölum og úr Reykhólasveit að sækja námskeiðið.
Á milli helgarlotanna verður fjarnám gegnum netið og mun verkefnastjóri á Hólmavík aðstoða við tæknilega atriði sem að því snúa.
Það er Guðbjörn Páll Sölvason á Ísafirði sem sér um kennsluna á námskeiðinu. Námskeiðsgögn eru
Sjómannabók (eftir Pál Ægi Pétursson), Siglingareglur, Siglingalög og þrjú sjókort. Nemendur þurfa að eiga reglustiku og gráðuhorn, en hægt er að láta panta það fyrir sig við skráningu og greiða með námskeiðsgjaldinu.
Námið kostar 115 þúsund krónur og eru námsgögn innifalin. Fræðslumiðstöðin er ávallt sveigjanleg í samningum um greiðslur námskeiðsgjalda, en semja þarf um skiptingu greiðslna tímanlega.
Áhugasamir eru hvattir til að skrá sig fyrst, en ennþá vantar örfáa þátttakendur til að af námskeiðinu geti orðið.
Nánari upplýsingar fást hjá Kristínu verkefnastjóra á Hólmavík í síma 867 3164 eða á heimasíður Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða.