Smitrakningar snjallforritið „Rakning C-19“

DalabyggðFréttir

Landlæknir hefur í samstarfi við góða aðila útbúið snjallsímaforrit til að aðstoða við rakningu smita vegna COVID-19 veirunnar.

Smitrakning getur verið flókin og kallar á mikinn mannskap ásamt því að erfitt getur reynst fyrir smitaða einstaklinga að rifja upp nákvæmar ferðir sínar. Er forritið hannað með það í huga að auðvelda smitrakningu en slík forrit hafa gefið góða raun m.a. í Suður Kóreu og Singapúr.

Til að forritið virki þarf notandi bæði að samþykkja niðurhal þess í símann og einnig að samþykkja miðlun upplýsinga til smitrakningateymis ef þess gerist þörf. Eru GPS staðsetningargögn notuð til að fá upplýsingar um ferðir viðkomandi og eru eingöngu vistaðar í síma notana, upplýsingum er ekki deilt með neinum nema ef notandi samþykkir aðgang smitrakningateymisins að þeim. Gögn eru þá auðkennd með kennitölu notanda svo ekki fari á milli mála hver sé að baki gögnunum. Staðsetningargögnunum verður svo eytt um leið og rakningateymið þarf ekki lengur á þeim að halda. Gögnin ná aðeins til ferða notanda 14 daga aftur í tímann.

Hönnun forritsins hófst fyrir rúmri viku. Það er embætti landlæknis sem ber ábyrgð á því en fjölmörg íslensk fyrirtæki lögðu því lið, m.a. Aranja, Kolibri, Stokkur, Sensa, Samsýn, forritarar frá Íslenskri erfðagreiningu og Syndis, en þau buðu öll fram aðstoð sína án endurgjalds.

Gætt var ítrustu varúðar varðandi upplýsingaöryggi og persónuvernd í samstarfi við reynda fagaðila og Persónuvernd. Öryggi kerfisins hefur nú staðist úttekt óháðs aðila.

Það á núna að vera komið bæði í App store og Google Play og ber heitið: Rakning C-19

Frekari upplýsingar um forritið má nálgast á vef landlæknis eða með því að smella HÉR.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei