Sögurölt um Tröllatungu

DalabyggðFréttir

Þriðjudagskvöldið 31. júlí kl. 19:30 halda sögurölt um Dali og Strandir áfram. Nú verður gengið í nágrenni bæjarins Tröllatungu í Tungusveit á Ströndum og hefst gangan á hlaðinu á bænum. Um er að ræða auðvelda og þægilega göngu, við allra hæfi.

 

Fyrir ókunnuga er bent á að beygt er fram að Tröllatungu við bæinn Húsavík við Steingrímsfjörð. Húsavík stendur við veg 68, stutt sunnan við vegamót Djúpvegar 61 og Innstrandavegar 68 við Hrófá. Leiðsögumaður verður Jón Jónsson þjóðfræðingur.

Tröllatunga er sögufræg jörð í meira lagi. Þar var kirkjustaður til ársins 1909 og enn er vel hugsað um kirkjugarðinn sem er upp við húsið. Í nágrenninu eru ýmsar náttúruperlur og þjóðsagnastaðir sem ætlunin er að heimsækja í þessu stutta sögurölti, þar má helst nefna Gvendarfoss, Gvendarbrunn, Gullhól og Grýlufoss.

Söguröltin eru haldin í samvinnu Strandamanna og Dalamanna, og standa Byggðasafn Dalamanna – Héraðsskjalasafn Dalasýslu, Sauðfjársetur á Ströndum og Náttúrubarnaskólinn fyrir þeim. Góð mæting hefur verið í söguröltin í sumar og hafa samtals 178 manns mætt í þær fimm gönguferðir sem nú eru að baki.

Eftir gönguna verður kvöldkaffi á boðstólum á Sauðfjársetrinu í Sævangi, fyrir þá sem vilja. Ekkert þátttökugjald er í sjálfri göngunni.

Sögurölt: Sögustaðir í nágrenni Tröllatungu

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei