Staðarhólsbók rímna

DalabyggðFréttir

Rósa Þorsteinsdóttir þjóðfræðingur verður með erindi um Staðarhólsbók rímna í Gyllta salnum á Laugum í Sælingsdal, fimmtudaginn 1. ágúst, kl. 21. Í lok apríl afhenti Kjartan Sveinsson tónlistarmaður, Sigurði Þórólfssyni bónda eftirgerð Staðarhólsbókar rímna. Eftirgerðin er nú til sýnis í Gyllta salnum á Laugum í Sælingsdal.
Pétur Bjarnason bóndi á Staðarhóli í Saurbæ gaf Árna handritið 1707, en ekki er vitað hvernig handritið komst í eigu Péturs. Staðarhólsbók rímna AM 604 4to er í fjórðungsbroti, þverhandarþykkt skinnhandrit. Handritið hefur upphaflega innihaldið 33 heila rímnaflokka og verið um 280 blöð, en nokkuð hefur týnst af blöðum svo nú eru í því 248 blöð og vantar á sumar rímurnar. Sama hönd er á öllu handritinu og hefur því verið slegið föstu að skrifarinn sé Tómas Arason frá Stað í Súgandafirði.
Rósa Þorsteinsdóttir lauk B.A. prófi í bókasafns- og upplýsingafræði og þjóðfræði frá Háskóla Íslands 1995 og M.A. prófi í þjóðfræði frá Háskóla Íslands 2005. Rósa starfar nú sem rannsóknarlektor á þjóðfræðisviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Rósa mun gera fyrir sögu handritsins og ýmsum óhefðbundum fróðleik því tengdu. En Staðarhólsbók rímna er af mörgum talin merkust allra rímnabóka.
Erindið er hluti af verkefninu Handritin alla leið heim, í tilefni 350 ára fæðingarafmælis Dalamannsins Árna Magnússonar handritasafnara. Á Laugum er og til sýnis í sumar eftirgerð af Staðarhólsbók rímna. Að verkefninu hér í Dölum standa Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Nýpurhyrna, Héraðsskjalasafn Dalasýslu og Byggðasafn Dalamanna. Verkefnið er styrkt af Menningarráði Vesturlands, Dalabyggð, Hótel Eddu á Laugum ofl.
  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei