Svæðisskipulag Dala, Reykhóla og Stranda 2018-2030

DalabyggðFréttir

Svæðisskipulagsnefnd Dalabyggðar, Reykhólahrepps og Strandabyggðar samþykkti þann 18. janúar 2018 að auglýsa tillögu að svæðisskipulagi sveitarfélaganna þriggja, skv. 24. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og tilheyrandi umhverfisskýrslu, skv. 7. gr. laga um umhverfismat áætlana nr. 105/2006.

Í svæðisskipulagstillögunni er sett fram sameiginleg framtíðarsýn á þróun landbúnaðar, sjávarnytja og ferðaþjónustu í þeim tilgangi að styrkja atvinnulíf og byggð. Greind eru tækifæri sem búa í auðlindum og sérkennum svæðisins og á grunni þess sett fram stefna í atvinnumálum, samfélagsmálum og umhverfismálum og síðan skipulagsstefna sem styður við hana.

Svæðisskipulagstillagan, ásamt umhverfisskýrslu, liggur frammi til sýnis á skrifstofum Dalabyggðar, Reykhólahrepps og Strandabyggðar og hjá Skipulagsstofnun, Borgartúni 7b í Reykjavík, frá og með föstudeginum 26. janúar 2018 til og með mánudagsins 12. mars 2018. Tillagan er einnig til sýnis á vefsíðum sveitarfélaganna og á vefnum samtakamattur.is.

Þeim sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er hér með gefinn kostur á að gera athugasemdir við svæðisskipulagstillöguna og umhverfisskýrslu. Frestur til að skila inn athugasemdum rennur út í lok mánudagsins 12. mars 2018. Senda skal skriflegar athugasemdir til Ingibjargar Emilsdóttur formanns svæðisskipulagsnefndar, skrifstofu Strandabyggðar, Höfðagötu 3, 510 Hólmavík eða með tölvupósti til ingaemils@strandabyggd.is.

Svæðisskipulagsnefnd Dalabyggðar, Reykhólahrepps og Strandabyggðar

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei