Tilkynning frá slökkviliðsstjóra

SveitarstjóriFréttir

Vegna langvarandi þurrka síðastliðnar vikur og óvissu með vætu í veðurspá á þjónustusvæði Brunavarna Dala, Reykhóla og Stranda vill slökkviliðsstjóri biðja íbúa og gesti um að fara með gát með allan eld og hitagjafa sem geta komið af stað gróðurbruna. Ef fólk verður vart við gróðurelda á strax að hringja í 112.

Á meðfylgjandi mynd eru gagnlegar upplýsingar frá Eldklár. Heimasíðurnar www.vertueldklar.is og www.grodureldar.is hafa að geyma gagnlegar upplýsingar um viðbrögð við gróðureldum og hvernig við getum reynt að koma í veg fyrir, með fyrirbyggjandi aðgerðum, alvarleg tjón vegna gróðurelda.

Þar sem verslunarmannahelgin er gengin í garð má búast við mörgum gestum á svæðið en einnig fara margir heimamenn í burtu og á það líka við um slökkviliðin sem eru fáliðuð um helgina. Sýnum því tillitssemi og aðgát.

Varðeldar eru ekki leyfðir í Dalabyggð, Reykhólahreppi og Strandabyggð nema í viðurkenndu bálstæði og ekki má kveikja í stærri bálköst en sem nemur einum rúmmetra af hlöðnu þurru timbri. Taka skal tillit til aðstæðna hverju sinni. Ekki er æskilegt að kveikja varðeld í miklum þurrki eins og hefur verið á svæðinu undanfarið.

 

Kveðja

Ívar Örn Þórðarson

Slökkviliðsstjóri Brunavarna Dala, Reykhóla og Stranda.

https://www.facebook.com/BrunavarnirDRS

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei