Tilraunaverkefni í uppbyggingu húsnæðis

DalabyggðFréttir

Dalabyggð hefur verið valin til þátttöku í tilraunaverkefni í uppbyggingu húsnæðis á landsbyggðinni.

Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra, og fulltrúar Íbúðalánasjóðs kynntu á fundi í Leifsbúð þann 12. desember fyrstu sjö sveitarfélög sem verða til að taka þátt í tilraunaverkefni um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á landsbyggðinni. Dalabyggð er eitt þeirra, hin eru Snæfellsbær, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Norðurþing, Hörgársveit, Vesturbyggð og Seyðisfjarðarkaupstaður. Íbúðalánasjóður auglýsti eftir þátttakendum í verkefnið í haust og sóttu alls 33 sveitarfélög um.

Markmið tilraunaverkefnisins er að leita nýrra leiða til þess að bregðast við húsnæðisvanda sem ríkir víðsvegar á landsbyggðinni vegna óvirks íbúða- og leigumarkaðar og skorts á viðunandi íbúðarhúsnæði. Á fundi sínum þann 13. desember lýsti sveitarstjórn Dalabyggðar yfir ánægju með að sveitarfélagið hefði verið valið til þátttöku í verkefninu sem verður ýtt úr vör í byrjun nýs árs.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei