Félag áhugamanna um Bátasafn Breiðafjarðar (FÁBB), sem undanfarin 3 ár hefur gengist fyrir siglingu súðbyrtra trébáta um Breiðafjörð, gengst nú fyrir slíkri bátahátíð dagana 2.-3. júlí.
FÁBB hefur súðbyrðinginn í öndvegi, og vinnur að verndun hans og kynningu. Einnig stendur félagið að sýningunni „Bátavernd og hlunnindanytjar“ sem opnuð var á Reykhólum 1. júní í samvinnu við Reykhólahrepp og Æðarvé, félag æðarbænda í Austur-Barðastrandarsýslu og Dalasýslu.
Að þessu sinni verður fyrirkomulag bátadaga þannig að siglt verður á laugardeginum 2. júlí bæði frá Reykhólum og frá Stykkishólmi í Rauðseyjar og Rúfeyjar. Á sunnudeginum 3. júlí er ráðgert að sigla í Akureyjar og einnig verður sýningin á Reykhólum opin fyrir þátttakendur.
Siglingin verður undir stjórn manna sem þekkja vel til aðstæðna við Breiðafjörð og eyjarnar verða skoðaðar í fylgd manna sem þekkja þær vel og lýsa staðháttum og sögu þeirra.
Allir súðbyrðingar er velkomnir og við viljum hvetja sem flesta til að nýta sér þetta tækifæri til siglingar um þetta fallega umhverfi.
Mjög góð aðstaða fyrir minni báta er bæði á Reykhólum og í Stykkishólmi.
Frekari upplýsingar veita
Hafliði Aðalsteinsson, haflidia@centrum.is, sími 898 3839
Hjalti Hafþórsson, artser@simnet.is, sími 861 3629
Sigurður Bergsveinsson, sberg@isholf.is, sími 893 9787
Fyrirhuguð siglingaleið