Þann 4. október síðast liðinn var lýst yfir neyðarstigi almannavarna í samráði við sóttvarnarlækni vegna sýkinga af völdum COVID-19 en frá 5. október hafa greinst yfir 1.000 smit innanlands. Í gær var Landspítalinn færður á neyðarstig vegna klasasmits sem kom upp á Landakoti og um þessar mundir eru nokkrir einstaklingar í sóttkví í Dalabyggð.
Við viljum því ítreka mikilvægi grundvallarsmitgátar við íbúa í Dalabyggð.
Þvoum hendur og sprittum, höldum fjarlægð við einstaklinga sem við deilum ekki heimili með, notum grímur og hanska þar sem þörf er á, þrífum sameiginlega snertifleti og höfum samband við heilsugæslu ef við finnum fyrir einkennum.
Við skulum viðhafa þolinmæði og skilning í garð annarra, verndum viðkvæma hópa, sinnum vinum og ættingjum með því að hafa samband og athuga hvernig þeir hafa það.
Gætum að því að vera ekki á ferðinni að óþörfu, reynum frekar að finna okkur skemmtilega afþreyingu heimavið. Í fallegu haustveðri er tilvalið að fara út að ganga, gefandi að eyða tíma með fjölskyldunni t.d. við að spila eða baka saman og dýrmætt að senda jákvæðni og hvatningu út til annarra.
Við erum öll orðin þreytt á ástandinu, það er fullkomlega skiljanlegt en við komumst í gegnum þetta, saman. Við erum öll almannavarnir – og verðum það áfram.