Sorpílát fyrir frístundahús

Kristján IngiFréttir

Með breyttu fyrirkomulagi sorphirðu heimila í dreifbýli hafa frístundahús í héraðinu ekki lengur aðgang að grenndargámum til að losa sig við almennt sorp. Síðustu vikur hefur verið gámur fyrir utan gámasvæðið sem frístundahús hafa getið losað í en nú eru komin kör við félagsheimili sveitarfélagsins og Vörðufellsrétt á Skógarströnd.

Neðangreindir staðir verða aðgengilegir allt árið og eru bara fyrir heimilisúrgang frá frístundahúsum í Dalabyggð:

  • Tjarnarlundur í Saurbæ, vestan við aðalinngang
  • Staðarfell á Fellsströnd, við aðalinngang
  • Árblik í Miðdölum, norðan við byggingu hjá timburpalli
  • Vörðufellsrétt á Skógarströnd, aðkoma vestan réttar

Yfirlitsmynd yfir heilsárs grenndarstöðvar frístundahúsa.

Á hverjum stað eru tvö stór kör sem bæði eru ætluð fyrir almennt sorp. Þau eru staðsett í sem mestu hvarfi frá þjóðvegi, en samt þannig að aðgengi að þeim sé gott. Framan af ári verða þau fest niður til bráðabirgða en verður komið fyrir í skýli í sumar ásamt ílátum sem bætast við fyrir endurvinnslu- og lífrænan úrgang, sbr. flokkun frá heimilum. Festingar eru beggja megin á loki svo þau fjúki ekki upp. Mikilvægt er að þeim sé lokað aftur eftir losun!

Notendur eru beðnir um að ganga vel um ílátin og setja aðeins í þau heimilisúrgang. Áfram verður hægt að skila frá sér endurvinnanlegum úrgangi í lúgurnar við gámastöðina allan sólahringinn. Séu ílátin full eða notendur hafa ábendingar skal koma þeim til skrifstofu Dalabyggðar, 430-4700 eða dalir@dalir.is.

Fleiri grenndarstöðvar verða til staðar yfir sumartímann. Endanlegur fjöldi og staðsetningar liggja fyrir á næstunni og verður upplýsingum um það komið til skráðra eigenda frístundahúsa, ásamt upplýsingum um flokkun og klippikorti fyrir gámasvæði (2 m3 af gjaldskyldum úrgangi, sjá nánar í nýrri gjaldskrá).

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei