Miðvikudaginn 15. nóvember hélt atvinnumálanefnd Dalabyggðar kaffispjall í Nýsköpunarsetrinu.
Tilgangur með kaffispjalli er að fólk komi og ræði saman um ákveðin þema án þess að eiginleg fundarstjórn sé í gangi eða eitthvað eitt afmarkað málefni sé á dagskrá. Þannig var allt starfssvið atvinnumálanefndar til umræðu og nefndarmenn svöruðu einnig spurningum sem komu upp.
Það sem kom m.a. upp í umræðum voru vegamál, dagvöruverslanir, landbúnaður, eldsneytissala, eftirlitsgeirinn, matvælaframleiðsla, ferðaþjónusta og frekari uppbygging.
Nefndin nýtti tækifærið og kom nokkrum atriðum á framfæri sem hér eru ítrekuð:
Nú er opið fyrir umsóknir í Uppbyggingarsjóð Vesturlands til og með 22. nóvember nk. Þar er hægt að fá styrki til atvinnuþróunar og nýsköpunar, verkefnastyrki til menningarmála, stofn- og rekstrarstyrki til menningarmála. Ráðgjafar SSV aðstoða við umsóknir og er um að gera að nýta sér þann möguleika.
Samhristingur ferðaþjóna og áhugasamra aðila verður haldinn á Dalahóteli að Laugum í Sælingsdal fimmtudaginn 23. nóvember þar sem farið verður yfir starfsár ferðaþjónustunnar 2023 og rætt um áherslur á árinu 2024. Nauðsynlegt er að skrá sig en skráning er opin til og með 20. nóvember: SKRÁ MIG
Athygli er vakin á að búið er að opna litla matvælavinnslu í Tjarnarlundi þar sem heimilt er að meðhöndla, vinna og pakka bakstri, sultum og saft, hunangi, korni, grænmeti, ávöxtum, berjum og jurtum ásamt ferskostum: Matvælavinnsla í Tjarnarlundi tekin í notkun
Minnum á að framleiðendum, fyrirtækjum og þjónustuaðilum í sveitarfélaginu býðst að taka við gjafabréfum sem verða jólagjöf til starfsfólks Dalabyggðar. Það virkar þannig að viðkomandi skráir þá þjónustu/vöru sem gjafabréfið gildir fyrir, hjá sveitarfélaginu (dalir@dalir.is). Svo þegar viðskiptavinur skilar gjafabréfi inn til viðkomandi og fær vöru/þjónustu í staðin, er sendur reikningur á sveitarfélagið fyrir inneign gjafabréfsins. Skráning er opin til 5. desember: Jólagjöf til starfsmanna Dalabyggðar – kallað eftir þátttöku
Dæmi: Í fyrra var t.d. hægt að fá nautakjöt frá Miðskógi, versla vörur hjá Blómalindinni eða nýta gjafabréfið upp í gistingu á Dalahóteli. Eigandi gjafabréfsins greiddi þá fyrir með gjafabréfinu. Það var undir hverjum og einum eiganda gjafabréfs að ákveða hjá hverjum af skráðum aðilum, það var nýtt.
Einnig var minnt á viðveru ráðgjafa og fulltrúa SSV en dagskrá viðverunnar má sjá hér: Viðvera ráðgjafa SSV