Matvælavinnsla í Tjarnarlundi tekin í notkun

DalabyggðFréttir

Á sveitarstjórnarfundi í gær, fimmtudaginn 9. nóvember voru staðfestar fundargerðir byggðarráðs og atvinnumálanefndar þar sem fjallað var um gjaldskrá matvælavinnslu í Tjarnarlundi í Saurbæ.

Vaxandi áhugi hefur verið á sölu varnings og matarhandverki á Vesturlandi. Íbúar í Dalabyggð hafa verið einstaklega framtakssamir í framleiðslu matarhandverks. Til að mæta þessari jákvæðu þróun hefur sveitarfélagið nú fengið starfsleyfi á svokallaða litla matvælavinnslu í félagsheimilinu Tjarnarlundi.

Í dag má ekki selja matvörur á almennum markaði nema söluaðili hafi til þess fullgild leyfi og vörurnar séu framleiddar í þar til gerðri og vottaðri aðstöðu. Von Dalabyggðar er sú að nýja vinnslan mæti þessum kröfum með því að bjóða aðgang að vottaðri aðstöðu.

Lítil matvælavinnsla eða vottað eldhús (stundum kallað deilieldhús eða matarsmiðja) er aðstaða sem fullnægir öllum kröfum um vinnuaðstöðu og heilbrigðishætti, hvað varðar vottun og starfsleyfi til framleiðslu á matvælum sem bjóða á til sölu „beint frá býli“ eða á almennum markaði.

Sú aðstaða sem hér um ræðir fellur undir skilgreininguna „Lítil matvælavinnsla:
Vinnsla sem vinnur afurðir úr jurtaríkinu, hunangi og/eða samsett matvæli úr jurta- og dýraríkinu, að hámarki úr 300 kg af hráefnum úr dýraríkinu á viku“ sem fjallað er um í reglugerð um lítil matvælafyrirtæki og hefðbundin matvæli nr.856/2016. Þ.e. sultur, bakstur og skyld starfsemi.

Nánar tiltekið verður leyfilegt að vinna eftirfarandi matvæli til sölu, þ.e. meðhöndlun, vinnsla og pökkun:

  • Bakstur
  • Sultur og saft
  • Hunang
  • Korn, grænmeti, ávextir, ber og jurtir
  • Ferskostar

Allir sem áhuga hafa geta leigt aðstöðuna til að vinna þar matvöru sem samræmist starfsleyfi hússins.

Notandi skal ávallt hafa samband við húsvörð í gegnum tölvupóst til að panta tíma í matvælavinnslu með a.m.k. viku fyrirvara. Notendur eru einnig hvattir til að kynna sér gæðahandbók aðstöðunnar og þá skilmála sem þar koma fram.

Gæðahandbók Tjarnarlundur – Lítil matvælavinnsla
Gjaldskrá – Tjarnarlundur – Lítil matvælavinnsla
Gæðahandbók – Skráningarblöð

 

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei