Röðulshátíð

DalabyggðFréttir

Laugardaginn 25. ágúst verður opið hús í samkomuhúsinu Röðli á Skarðsströnd kl. 14–19.
Samkomuhúsið Röðull var byggt á árunum 1942-1944 af Ungmennafélaginu Vöku á Skarðsströnd. Þar voru haldnar fjölbreyttar skemmtanir og dansleikir á árum áður, þar á meðal víðfræg réttarböll.
Kaffi, kökur og grillaðar pylsur verða í boði fyrir gesti á meðan birgðir endast. Handverk, krydd, sultur og fleiri heimagerðar afurðir af Skarðsströndinni verða til sölu.
Undanfarna mánuði hefur verið safnað sögum og endurminningum úr Röðli og verður þeim gerð skil og fleiru á sýningu í húsinu. Enn geta menn bætt í sarpinn og komið sínum endurminningum til skila til Guðrúnar Jóhannsdóttur Klifmýri eða þá héraðsskjalavarðar. Allar frásagnirnar verða varðveittar á Héraðsskjalasafni Dalasýslu ásamt gögnum félagsins. Engar ljósmyndir hafa fundist frá samkomum í Röðli og eru þær ekki síður vel þegnar.
Húsið er í nú endurbyggingu og hefur til þess fengið styrk frá Húsafriðunarnefnd.
Allir eru velkomnir að Röðli næsta laugardag hvort sem er til að rifja upp gamlar minningar í góðum hópi, kynnast mannlífi á Skarðsströnd eða hreinlega til að komast því hvernig hægt var að halda 400 manna samkomur í húsinu.

Röðulshátíð er styrkt af Menningarráði Vesturlands og Þín verslun Seljabraut.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei