Dalabyggð auglýsir eftir tillögu að verki við innkomu í Búðardal

DalabyggðFréttir

Sveitarfélagið Dalabyggð kallar eftir tillögum að frumhönnun á aðkomutákni sem býður fólk velkomið í þéttbýliskjarnann Búðardal.

Um er að ræða verk sem staðsett verður við innkomu í þorpið en eftir er að velja endanlega staðsetningu. Tilgangur með því að auglýsa eftir hönnun er að fá fram tillögu að verki sem best er fallin til framkvæmdar. Það er samstarfshópur Dalabyggðar, Vegagerðarinnar og SSV sem fer með umsjón þessa verkefnis.

Þau sem vilja senda inn tillögur þurfa að hafa eftirfarandi í huga:

  • Senda skal inn tillögu að hönnun ásamt útskýringu á verkinu og hvaða tengingu það hafi við sveitarfélagið.
  • Um er að ræða frumhönnun, því fullhönnun þarf að fara fram í samráði við hagaðila þ.e. Dalabyggð og Vegagerðina út frá verklagsreglum þeirra, gildandi skipulagi, lögum og reglugerðum.
  • Verkið þarf að þola íslenskt veður, vera endingargott og raunhæft í framkvæmd. Ekki er gerð krafa um úr hvaða efni verkið er eða framsetningu að öðru leyti s.s. hvort það sé í formi skiltis, frístandandi verk eða framsett með öðrum hætti en hönnuður þarf að rökstyðja val sitt á efni og framsetningu.
  • Þóknun er ekki veitt fyrir innsendar tillögur en verðlaun verða veitt fyrir þá tillögu sem verður valin til framkvæmdar, verðlaun eru í formi gjafabréfa að andvirði 300.000.
  • Starfshópurinn fullvinnur verkið með höfundi en Dalabyggð kostar fullvinnslu verksins og eignast verkið að því loknu. Dalabyggð hefur rétt til þess að nota heildarniðurstöður verkefnisins við frekari vinnu. Sæmdarréttur helst sbr. 4. gr. Höfundalaga en gerður verður samningur milli höfundar og Dalabyggðar.
  • Sögu verksins, tilurð og tengingu við sveitarfélagið verður komið á framfæri á heimasíðu Dalabyggðar ásamt mynd af verkinu.

Skil á tillögu

  • Skila má inn tillögum hvort heldur sem einstaklingur eða hópur en ekki sem lögaðili.
  • Tillögum skal skila inn nafnlaust. Ef skil eru á pappír eru tengiliðaupplýsingar látnar fylgja með í lokuðu umslagi merkt „tengiliðaupplýsingar“ sem er ekki afhent starfshóp fyrr en niðurstaða liggur fyrir. Séu skil rafræn eru tengiliðaupplýsingar látnar fylgja með í pdf skjali merkt „tengiliðaupplýsingar“ sem er ekki afhent starfshóp fyrr en niðurstaða liggur fyrir.
  • Tillögu má skila inn sem textalýsingu, uppdrætti eða teikningu, rafrænt eða á pappír eftir því sem höfundi þykir passa best. Hámarks lengd tillögu eru fjórar A3 blaðsíðu.
  • Útskýringar og annar texti sem skilað er skal vera á íslensku.
  • Tillögu þurfa einnig að fylgja drög að kostnaðaráætlun ásamt upplýsingum um forsendur hennar.
  • Tillögu skal skila inn á skrifstofu Dalabyggðar að Miðbraut 11, 370 Búðardal (opið virka daga frá kl.09-13) eða á netfangið johanna@dalir.is fyrir 10. apríl 2024.
  • Ekki er hægt að skila gögnum, hvort heldur nýjum eða til viðbótar við innsenda tillögu eftir að skilafresti lýkur.

Í samstarfshópnum sitja fyrir hönd Dalabyggðar, Björn Bjarki Þorsteinsson sveitarstjóri og Alexandra Rut Jónsdóttir aðalmaður í menningarmálanefnd,  Birgitta Rán Ásgeirsdóttir deildarstjóri og Sigurður Friðgeir Friðriksson sérfræðingur á tæknideild Vestursvæðis fyrir Vegagerðina auk Sigursteins Sigurðssonar menningarfulltrúi Vesturlands.

Starfsmaður hópsins er Jóhanna María Sigmundsdóttir og tekur hún saman þau gögn sem hópurinn vinnur með, tengiliðaupplýsingar eru ekki afhentar hópnum fyrr en niðurstaða liggur fyrir.

Samstarfshópur verkefnisins fer yfir, metur og velur tillögu til framkvæmdar. Niðurstaða samstarfshópsins ásamt rökstuðningi verður birt á heimasíðu Dalabyggðar. Samstarfshópnum er heimilt að velja hvaða tillögu sem er og hafna hvaða tillögum sem er.

Þegar fyrir liggur ákveðin tillaga, gera Dalabyggð og höfundur tillögunnar með sér samning um áframhaldandi framvindu verkefnisins og notkun verksins. Samninginn skal undirrita innan 2ja vikna og er undirritun hans forsenda þess að verðlaun séu afhent. Náist ekki samningar um valda tillögu er samstarfshópnum heimilt að koma saman að nýju og taka fyrir aðrar innsendar tillögur. Tillaga sem verður valin og samningar nást um, verður svo fullunnin í samráði við samstarfshópinn til að gæta þess að mið sé tekið af m.a. öryggiskröfum Vegagerðarinnar og reglum um skilti og verk nærri vegum.

Sem fyrr segir er leitað að tillögum að aðkomutákni við Búðardal, tillögu skal skila fyrir 10. apríl 2024. Vinsamlegast fylgið vel þeim leiðbeiningum sem teknar eru fram hér að ofan.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei