Sigursælir Daladrengir í fótbolta

DalabyggðFréttir

Það voru hamgingjusamir Daladrengir sem keyrðu heim með bikar í farteskinu s.l. laugardag frá Borgarnesi eftir að hafa tekið þátt í Skallagrímsmótinu í 6. flokk.
Hugmyndin kom upp í vor hjá foreldrum nokkurra drengja um að fara með strákana á eitthvað mót í sumar og leyfa þeim að spreyta sig í keppni. Strákarnir hafa aldrei farið á mót og aldrei keppt áður fyrir utan einn æfingaleik í fyrrasumar við Skallagrím sem Sigurður Bjarni Gilbertsson þáverandi þjálfari strákana stóð fyrir með miklum myndarskap. Á undanförnum árum hafa einstaklingar verið með fótboltaæfingar 1 sinni í viku á veturna og UDN boðið upp á æfingar 1-2 í viku á sumrin sem er að skila sér vel.
Þar sem sumarþjálfararnir voru horfnir á braut vantaði þjálfara. Ein mamman í hópnum er gömul fótboltakvinna og æfði með Val á árum áður og leikur sér ennþá með boltann öðru hvoru með „old girls“ í Dölunum þannig að hún var settur þjálfari. Síðan voru teknar nokkrar æfingar, stillt upp, haldnir töflufundir og svo lagt í hann í Borgarfjörðinn. Þar mætti okkur mikil stemming og var gaman að sjá hvað strákarnir okkar voru fullir sjálfstrausts þegar þeir gengu inn á svæðið eins og þeir hefðu aldrei gert neitt annað.
Strákarnir kepptu undir merkjum UDN og röðuðust í C-riðil og mættu þar FH9, UMSB, KR5 og ÍA4. Þeir gerðu sér lítið fyrir og sigruðu þrjá fyrstu leikina og þjálfarinn og foreldrarnir sem komu með vissu ekki hvaðan á þá stóð veðrið. Það verður að segjast eins og er að þó svo að við höfum vonast eftir góðum árangri að þá áttum við nú líka von á tapleikjum, grátköstum og sálfræðipeppi þar sem reynsla drengjanna var lítil.
Síðasti leikurinn í riðlinum var á móti ÍA sem voru einnig með fullt hús stiga og því um hreinan úrslitaleik að ræða í riðlinum. Leikurinn endaði 2-2 og upphófst nú mikill spenningur þar sem markatalan réði úrslitum. En til mikillar lukku var UDN komið í úrslitaleikinn þar sem þeir unnu riðilinn á markatölu. Naumt var það en það má segja að fótboltapabbar og –mömmur Daladrengjanna voru farin að lyftast á hliðarlínunni.
Úrslitaleikurinn var á móti KR6 og var æsispennandi og langur þar sem ekki náðist að skora en Daladrengjunum var dæmdur sigur að lokum. Þessir strákar eru sannar hetjur og er gaman að segja frá því að ljósmyndari mótsins hafði orð á því hve mikil gleði einkenndi liðið og það má glöggt sjá á myndum sem teknar voru á mótinu. Nú verður að fylgja þessum góða árangri eftir og efla starfið með krafti og metnaði og er sú vinna þegar farin af stað en strákarnir munu eignast glænýja búninga von bráðar, það er alveg á hreinu.
Það er gaman að hafa eftir orð drengjanna eftir sigurinn en þeim var tíðrætt um að þeir komu frá minnsta bænum en unnu samt. Þetta var eins og Ísland væri búið að vinna heimsmeistaratitilinn
  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei