Af kynningum ímyndaskýrslu og samanburðarskýrslu

DalabyggðFréttir

Vífill Karlsson fagstjóri atvinnu- og byggðaþróunarsviðs SSV og Bjarki Þór Grönfeldt lektor hjá Háskólanum á Bifröst heimsóttu Dalabyggð í gær, mánudaginn 5. júní með tvær kynningar sem fóru fram í Nýsköpunarsetrinu.

Annars vegar var um að ræða kynningu Vífils á skýrslunni „Margur er knár þó hann er smár“ þar sem skoðuð var ítrekuð ólík útkoma úr íbúakönnun landshlutanna. Þar voru borin saman nokkuð sambærileg fámenn svæði; Dalabyggð, Vestur-Húnavatnssýsla og Austur-Húnavatnssýsla.

Í skýrslunni kemur m.a. fram að ástæða fyrir þessum mikla mun á milli Dalabyggðar og Vestur-Húnavatnssýslu sé að sameiningin hafi gengið betur í V-Hún á meðan Dalirnir hafi hugsað of lengi um sig sem mismunandi einingar þrátt fyrir sameiningu. Þá velti munurinn einnig nokkuð á hugarfari og íbúar V-Hún eigi til dæmis auðveldara með að samgleðjast heldur en íbúar í Dölunum. Staða kvenna sé síðri í Dölum heldur en V-Hún en þar sé þó ekki launamismunur. Ánægja menntaðra kvenna er meiri en ófaglærðra í V-Hún en því er öfugt farið í Dölunum. Félags- og menningarstarf eigi einnig klárlega sóknarfæri í Dalabyggð, sem og jákvæðni og samkennd.

Hins vegar var kynning Bjarka á frumniðurstöður úr ímyndakönnun Vesturlands þar sem fjallað var um hverjar niðurstöður hennar voru varðandi ímynd Dalabyggðar.

Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi fól Háskólanum á Bifröst að framkvæma rannsókn sem hefði það að megin viðfangsefni að meta ímynd Vesturlands sem búsetuvalkost og valkost í ferðamennsku. Sambærileg skýrsla var síðast gefin út árið 2007. Könnunin var unnin með bæði opnum og lokuðum spurningum og beint að íbúum utan Vesturlands.

Í hluta opinna spurninga kom m.a. fram að þegar þátttakendur í könnuninni voru spurðir hvað þeim dytti allra fyrst í hug þegar Dalir væru nefndir voru topp fimm atriðin:

  1. Búðardalur
  2. Náttúran, náttúrufegurð
  3. Sagan
  4. Sveit, bændur, dreifbýli
  5. Mjólkurbú, mjólkurvörur

Þegar þátttakendur voru beðnir um að benda á eitthvað neikvætt um Dali, nefndu þeir m.a. samgöngur og vegamál, þjónustu við ferðamenn (þ.e. af skornum skammti), að svæðið væri óaðlaðandi, dauflegt, dautt.
Líklega er svigrúm til þess að nýta söguna og tenginguna við mjólkurvörur enn betur í markaðssetningu Dala, og mögulega flétta saman við ímyndina um sveitina og landbúnaðinn, sem einnig voru tengd nokkuð sterkt við Dali.

Eins og átti um við hin svæðin þóttu ástand vega og þjónusta við ferðamenn vera það sem helst neikvætt við Dali, en einnig var nokkuð um að Dölum væri lýst sem óaðlaðandi/dauflegum/dauðum, afskekktum og úr leið, og að svæðið vantaði kynningu og væri óþekkt.
Hafa ber í huga að færri þátttakendur svöruðu spurningum um Dalina en önnur svæði, mögulega vegna þess að menn áttuðu sig ekki á því hvaða svæði væri átt við. Hér er svigrúm til sóknar því á sama tíma lýstu þeir sem þekktu til svæðinu sem fallegu og einkennast af náttúrufegurð.

Í lokuðum spurningum var m.a. spurt út í mögulega búsetu í Dölunum. Íbúar landshluta á landsbyggðinni voru jákvæðari í garð búsetu í Dölum, þá sérstaklega íbúar á Norðurlandi. Hærri aldur hafði einnig nokkuð sterk tengsl við aukna jákvæðni í garð búsetu, því eldri sem þátttakendur voru, því jákvæðari í garð búsetu í Dölum. Heilt yfir eru fleiri sem sögðust vera frekar eða mjög sammála því að það gæti komið til álita að búa í Dölunum, eða 23,8% heldur en í könnuninni 2007, sem þá voru 12,3%

Hægt er að nálgast efnið í heild hér:
Margur er knár þó hann sé smár
Ímyndarskýrsla Vesturlands 2023

Við þökkur Vífli og Bjarka kærlega fyrir komuna, frábæra yfirferð á efninu og skemmtilegar umræður.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei