Akstur úr Búðardal í Borgarnes (leið 65) hefst 2. febrúar 2024

DalabyggðFréttir

Sl. sumar var tilkynnt að styrkur hefði fengist frá Byggðastofnun í tilraunaverkefni vegna aksturs milli Búðardals og Borgarness þar sem megin áhersla væri að bjóða framhaldskólanemum í Dalabyggð skólaakstur úr Búðardal í Menntaskóla Borgarfjarðar í Borgarnesi. Unnið hefur verið hörðum höndum að því að koma akstrinum á og varð ljóst að núverandi almenningssamgöngur milli Búðardals og Borgarnes myndu ekki geta uppfyllt reglulegan akstur sem nýst gæti nemendum. Einnig var vilji til þess að skoða samþættingu aksturs skólabíla úr dreifbýli Dalabyggðar í Búðardal við akstur framhaldsskólanema. Því var niðurstaðan að inn kemur ný leið á leiðarkerfi Strætó, leið 65.

Nú hefur verið sett fram áætlun fyrir þessa nýju leið sem miðar við ferðir til og frá Borgarnesi á mánudögum og föstudögum eða sem hér segir:

Leið 65
Mánudagar
Búðardalur – Borgarnes kl. 08:30
Borgarnes – Búðardalur kl. 09:45
Búðardalur – Borgarnes kl. 15:10
Borgarnes – Búðardalur kl. 16:25
Föstudagar
Búðardalur – Borgarnes kl. 08:30
Borgarnes – Búðardalur kl. 09:45
Í seinni ferð úr Borgarnesi í Búðardal er notast við leið 59 hjá Strætó.
Brottför kl. 16:58 frá N1 Borgarnesi.
Stoppistöð leiðar 65 í Búðardal er við Auðarskóla að Miðbraut 10.
Stoppistöð leiðar 65 í Borgarnesi er við Menntaskóla Borgarfjarðar, Borgarbraut 54.
Stoppistöð leiðar 59 í Borgarnesi er hjá N1 en í Búðardal við Krambúðina, Vesturbraut 20.

Brottfarartími úr Búðardal var ákveðinn með tilliti til komu skólabíla úr dreifbýli Dalabyggðar að Auðarskóla. Leiðin er opin öllum sem geta nýtt sér ferðirnar og tilkynna fyrirhugaða notkun. Tilgreindur tími er brottför bílsins frá stoppistöð, til að reikna komutíma á áfangastað má bæta við ca. 1 klst og 10 mínútum. Þannig er ferð sem fer úr Búðardal kl. 08:30 á mánudagsmorgni að lenda í Borgarnesi um kl. 09:40.

Fyrsta ferð verður farin föstudaginn 2. febrúar 2024 og fer hún frá Auðarskóla kl.08:30

Með ofangreindum ferðum er verið að gera framhaldsskólanemum sem vilja nýta bílinn kleift að komast til og frá skóla bæði mánudaga og föstudaga. Tilraunaverkefnið er unnið í samstarfi við Menntaskóla Borgarfjarðar svo þeim er kunnugt um hvenær nemendur eru að mæta í skólann og eins hvenær þeir þurfa að vera komnir út í bíl til að geta nýtt heimferð. Eins getur almenningur hlutast til um að fá far með bílnum á uppgefnum tímum hvort sem það er fyrir íbúa Dalabyggðar að komast í Borgarnes og heim aftur eða gesti að koma í Búðardal.

Dalabyggð niðurgreiðir kostnað framhaldsskólanema á fargjaldi á leið 65 en almenningur og aðrir íbúar Dalabyggðar greiða gjald skv. gjaldskrá Strætó. Gjald fyrir hverja ferð á leið 65 er sem hér segir:

Gjald framhaldsskólanemenda*
1.000 kr.-
Frítt er fyrir 11 ára og yngri
Almennt gjald
2.890 kr.-
12-17 ára (ekki framhaldsskólanemar), eldri borgarar og öryrkjar fá 50% afslátt af almennu gjaldi.

*gjald framhaldsskólanemenda miðar við að viðkomandi sé skráður nemandi í Menntaskóla Borgarfjarðar, óháð aldri.

Þar sem um tilraunaverkefni er að ræða verður fylgst vel með nýtingu akstursins á þessari nýju leið. Þannig þarf að hafa sérstaklega samband við skrifstofu Auðarskóla ef nýta á ferð.

Þeir sem vilja nýta sér akstur á mánudegi þurfa að tilkynna það til skrifstofu Auðarskóla eigi síðar en kl. 12:00 á hádegi föstudaginn á undan (fyrir helgi) og þeir sem ætla að nýta sér akstur á föstudegi þurfa að tilkynna eigi síðar en kl. 14:00 á fimmtudegi (daginn áður). Falli áður tilkynnt nýting niður t.d. vegna veikinda þarf að tilkynna það til bílstjóra með SMS (símanúmer aðgengilegt á vef Dalabyggðar) fyrir kl. 08:15 að morgni þess dags sem nýta átti ferð.

Dalabyggð áskilur sér rétt til að fella niður ferð með stuttum fyrirvara ef enginn framhaldsskólanemandi ætlar að nýta ferð þann daginn eða ef metið er að veður og/eða færð hamli akstri.

Leiðin mun aka sem fyrr segir á mánudögum og föstudögum og miðast við skóladagatal grunnskóla Auðarskóla og Menntaskóla Borgarfjarðar, s.s. hún er ekki ekin í skólafríum og á rauðum dögum. Skóladagatal Menntaskóla Borgarfjarðar má finna á heimasíðu skólans www.menntaborg.is og skóladagatal Auðarskóla á www.audarskoli.is

Allar ofangreindar upplýsingar eru með fyrirvara um frekari þróun í innleiðingu þessa verkefnis. Ef breytingar verða á verkefninu verða þær kynntar á heimasíðu Dalabyggðar og samfélagsmiðlum.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei